Þórshöfn
taðhættir
Sandgerðisvík skerst inn í vestanvert Rosmhvalanes.

Kaupstaðagatan

Kaupstaðagatan norðan Ósa.

Víkin afmarkast að sunnan og vestan af skerjaklasa sem nefnist einu nafni Bæjarskerseyri. Landið umhverfis Sandgerði er láglendi og að austan er Miðnesheiði, víða grýtt og gróðurlítil. Minjar eftir mikinn uppblástur sjást víða, stór rofabörð, sem sýna að fyrrum var jarðvegur mun meiri í heiðinni en nú er. Nú er sauðfjárhald að mestu afnumið en landið friðað. Norðan Sandgerðis eru Flankastaðir. Þar myndaðist snemma byggðarhverfi.

En með vaxandi byggð hefur Sandgerði náð þangað og er nú skammt á milli hverfa. Að sunnan liggur land Bæjarskerja að Sandgerði.
Seinustu árin hefur byggðin í Sandgerði teygt sig þangað og nú eru þessi gömlu hverfi sambyggð.

Flankastaðir

Flankastaðir.

Sjávarströndin er lág, víða sendin og mjög skerjótt. Sandfok herjaði áður á byggðina og eyðilagði oft fisk sem breiddur var til þurrkunar. En á árunum 1930-1950 var gert stórátak í baráttunni gegn sandfokinu og það heft með melgresi. Landbrot hefur verið geysimikið á Miðnesi. Sést það á hinu mikla útfirri meðfram landinu, t.d. fram undan Kirkjubóli skammt norðan Flankastaða.

Bærinn Sandgerði

Sandgerðisviti

Sandgerðisviti.

Um 1935 var steyptur mikill sjóvarnargarður fyrir landi Sandgerðis. Bærinn Sandgerði (1883) stóð við litla tjörn norðan til í hverfinu sem myndaðist snemma upp af Sandgerðisvörinni. Er tjörnin kennd við bæinn og heitir Sandgerðistjörn. Á seinni hluta síðustu aldar var byggt stórt timburhús í stað gamla Sandgerðisbæjarins. Stendur húsið enn á tjarnarbakkanum. Þar bjó Sveinbjörn Þórðarson og seinna sonur hans, Einar. En þeir feðgar voru eigendur Sandgerðis.

Sandgerðisvör

Sandgerðisvör var við svokallaðan Hamar, þar sem nú er aðalgarður hafnarinnar. Til að komast inn á Sandgerðisvík þarf að fara í gegnum Hamarssund, en það er norðan við Bæjarskerseyri.

Sandgerði

Sandgerði.

Sundið er fremur þröngt og getur verið vandratað fyrir ókunnuga. Eru um 800 metrar frá mynni sundsins að höfninni sjálfri. Á tímum árabáta var sund þetta þrautarsund. Það var notað við landtöku þegar önnur sund lokuðust vegna brims og urðu ófær bátum.

Sandgerði telst ekki til stærri bæja landsins með rúml. 1.400 íbúa en margt bendir til þess að bærinn hafi samt sem áður alla burði til að verða í fremstu röð sveitarfélaga á landinu. Sandgerði er fyrst og fremst útgerðarbær og er ánægjulegt að segja frá því að stöðugt er verið að bæta hafnaraðstöðuna og búa í haginn fyrir þau útgerðarfyrirtæki sem hér starfa.

Fræðasetrið Rannsóknarstöðin Náttúrustofan

Sandgerði

Fræðasetrið í Sandgerði.

Í Sandgerði er starfrækt Botndýrarannsóknarstöðin BioIce og þar stunda virtir fræðimenn, innlendir og erlendir, botndýrarannsóknir. Náttúrustofa Reykjaness starfar þar undir sama þaki og hafa þessi fyrirtæki gefið bæjarfélaginu nýjan og ferskan blæ. Ekkert eitt verkefni hefur haft eins mikil áhrif á stöðu bæjarfélagsins út á við. Gestum sem heimsækja Fræðasetrið fjölgar stöðugt. Stórir hópar, innlendir jafnt sem erlendir heimsækja setrið árið um kring, kynna sér starfsemi þess og skoða þar m.a. uppstoppuð sjávardýr og fugla.

Sandgerði

Sandgerði.

Undanfarin ár hefur Sandgerði tekið örum breytingum sem hafa miðað að því að gera bæjarfélagið betra og þjónustuvænna til að búa í. Má þar m.a. nefna byggingu þjónustuíbúða fyrir eldri borgara, stækkun grunnskólans og leikskólans, bætt aðstaða við sundlaugina, stækkun á anddyri íþróttahússins. Risin er ný og glæsileg verslun og mikið átak hefur verið gert í umhverfismálum. Margt fleira mætti nefna, eins og t.d. að tekin hefur verið ákvörðun um að reisa myndarlegan miðbæjarkjarna í samvinnu við Búmenn, þar sem gert er ráð fyrir ráðhúsi, íbúðum og þjónustufyrirtækjum í hjarta bæjarins til hagsbóta fyrir bæjarbúa. Sú framkvæmd mun gera bæinn fegurri og meira aðlaðandi og auðvelda íbúunum að sækja alla þjónustu.

Félagslíf æskulýðsins

Sandgerðisviti

Sandgerðisviti.

Skýjaborg er félagsheimili æskulýðsins, og þar fer fram blómlegt og uppbyggjandi félagsstarf þar sem unga fólkið nýtur sín undir leiðsögn fagfólks. Mikil rækt hefur verið lögð við tónlistina og unglingarnir tekið þátt í söngvakeppnum og náð verulega góðum árangri. Einnig hefur verið kennd fatahönnun í grunnskólanum og í framhaldi af því hefur starfsfólk Skýjaborgar aðstoðað hina ungu hönnuði við að taka þátt í hönnunarsamkeppni þar sem árangur hefur einnig verið frábær.
Í tengslum við Skýjaborg er svo mjög góð útivistaraðstaða ásamt fótboltavelli þar sem fram fara heimaleikir Reynis í Sandgerði. Körfuboltinn er einnig öflugur og keppt er bæði í meistaraflokki og yngri flokkum en æfingar eru stundaðar í hinu glæsilega íþróttahúsi bæjarins.

Sandgerði

Sandgerði – sundlaug.

Í sundlauginni sem tengist íþróttahúsinu stunda yngri krakkarnir sundæfingar. Búið er að lagfæra umhverfi laugarinnar og koma fyrir vaðpolli fyrir yngstu börnin. Þar hefur verið sett upp nýtt gufubað og einnig stendur til að stækka og dýpka sjálfa sundlaugina. Þegar þeim framkvæmdum er lokið verður öll aðstaða þar til fyrirmyndar.
Aðrir áhugaverðir staðir eru Ný-Vídd; listagallerí þar sem áhugafólk um listsköpun hefur vinnuaðstöðu og í sama húsi er kertaverksmiðjan Jöklaljós sem framleiðir kerti af öllum stærðum og gerðum. Loks má nefna Púlsinn, sem er nýr staður, en þar er boðið upp á nám í leiklist, jóga, leikfimi og ýmsu öðru áhugaverðu.
Ýmislegt fleira er í boði fyrir unga sem aldna, s.s. kór- og kirkjustarf, skátar, unglingadeild björgunarsveitarinnar, golfkennsla o.fl.

Höfnin

Sandgerði

Sandgerði – höfnin.

Hafnarframkvæmdir hafa verið miklar og má þar nefna dýpkun innan hafnar, bygging varnargarðs og miklar fyllingar við norðurbryggju. Varanlegt slitlag hefur verið lagt á alla norðurbryggju með nýjum kanttrjám. Einnig hefur norðurbryggjan verið lengd og hafnarsvæðið verið stækkað til mikilla muna frá því sem áður var. Á hafnarsvæðinu og í tengslum við það hafa risið nokkur fyrirtæki í glæsilegum byggingum. Þar má nefna Fiskmarkað Suðurnesja, og fiskvinnslufyrirtækin Tros og Ný-fisk ásamt fleiri fyrirtækjum.

Álög

Sandgerði

Listaverkið Álög.


Vart er hægt að hugsa sér stórfenglegri sýn en þá sem blasir við þegar keyrt er inn í Sandgerði. Þar mætast himinn og haf og útsynningurinn lemur skerjagarðinn með brimföldum sem tóna við hið fagra listaverk Álög sem stendur við innkeyrsluna í bæinn. Verkið er eftir listakonuna Steinunni Þórarinsdóttur og þar gefur að líta þrjár rústfríar öldur sem tákna að hafið er eilíft en maðurinn sem stendur þar hjá er úr pottstáli því hann er forgengilegur. Verkið var sett upp á 100 ára afmæli Miðneshrepps 1986 til minningar um látna sjómenn.

Hunangshella

Hunangshella

Hunangshella.

Hunangshella er löng klöpp á þjóðveginum norðan við Ósabotna. Sagan segir að eitt sinn hafi þar hreiðrað um sig finngálkn ( afkvæmi tófu og kattar) og varnað ferðamönnum vegar. Dýrið var afar styggt en loks tókst að skjóta það meðan það sleikti upp hunang sem hellt hafði verið yfir helluna.

Þórshöfn

Lindarsandur

Lindarsandur neðan Melabergs.

Þórshöfn var helsti verslunarstaður Þjóðverja á 15. og 16. öld og sló þar stundum í brýnu milli þeirra og Englendinga. Með einokunarversluninni minnkaði mikilvægi Þórshafnar og lagðist hún af sem verslunarstaður. Á 19. öld hófust skipakomur þangað á nýjan leik og sóttu heimamenn það fast að hún yrði gerð að löggiltum verslunarstað en án árangurs.
Árið 1881 strandaði rétt hjá Þórshöfn enska vöruflutningaskipið Jamestown. Skipið var eitt allra stærsta seglskip sinnar tíðar, meira en 100 metra langt og 20 metra breitt og er eitt af tröllauknum akkerum þess varðveitt í Höfnum. Farmurinn var afar verðmætur því lestar skipsins voru fullar af úrvals timbri. Efra Sandgerði sem er elsta húsið í Sandgerði er byggt úr þessu timbri. Sögur segja þó að ballest skipsins hafi verið öllu verðmætari því hún hafi verið mexikóskt silfurgrýti. Ef til vill liggur því verðmætur silfursjóður á hafsbotni í Ósum.

Básendar / Gálgar

Gálgar

Gálgar.

Básendar urðu verslunar- og útgerðarstaður strax á 15. öld. Framan af voru þeir í eigu Viðeyjarklausturs en eftir siðaskiptin tók konungsvaldið útgerðina í sinar hendur og máði hún hámarki að fyrstu tugum 18. aldar en um þær mundir voru konungsbátar í Gullbringusýslu milli 80 og 100 talsins. Rekstur konungsútgerðarinnar var þó ekki burðugri en svo að árið 1769 var hún lögð niður.

Enn um sinn héldu þó danskir einokunarmenn áfram að stunda verslun frá staðnum og voru margir þeirra afar illa þokkaðir. Í kvæðinu Básendapundarinn eftir Grím Thomsen segir frá útistöðum Skúla fógeta við einn slíkan. Verslun lagðist af á Básendum eftir gríðarlegt sjávarflóð aðfaranótt 9. janúar 1799, þar sem kaupmaðurinn á staðnum misti allar eigur sínar og ein kona drukknaði.

Gálgar nefnast tveir háir klettar skammt fyrir ofan gönguleiðina. Milli þeirra er nokkurra faðma breitt sund sem ævagamlar sagnir herma að sakamenn hafi verið hengdir í. EF þetta á við rök að styðjast, má gera ráð fyrir að á næstu grösum hafi verið héraðsþing til forna.

Stafnes

Stafnes

Á Stafnesi.

Stafnes var fjölmennasta verstöð Suðurnesja á 17. og 18. öld, enda var það ásamt Vestmannaeyjum miðstöð konungsútgerðarinnar. Áfram var róið af kappi frá Stafnesi fram undir miðja þessa öld, þrátt fyrir fjölmörg háskaleg sker sem grandað hafa ófáum skipum og bátum. Meðal skipa sem strönduðu var togarinn Jón forseti sem fórst þar árið 1928, en til þess slyss má rekja stofnun slysavarnardeildarinnar Sigurvonar í Sandgerði.

Hvalsnes

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Hvalsnes hefur frá fornu fari verið kirkjustaður. Þar hafa setið ýmsir þekktir prestar en frægastur er þó vafalaust Hallgrímur Pétursson. Í kirkjunni er varðveittur legsteinn Steinunnar Hallgrímsdóttur sem talið er að skáldið haf sjálft höggvið. Núverandi kirkja var vígð árið 1887 og er einhver allra fegursta steinkirkja landsins. Fyrir byggingu hennar stóð Ketill Ketilsson hreppstjóri í Höfnum en altaristaflan er eftir Sigurð Guðmundsson málara.

Melaberg

Melaberg

Melaberg.

Á Melabergi bjó samkvæmt þjóðsögunni fátæk ekkja ásamt syni sínum. Eitt sinn henti soninn það ólán að verða strandaglópur við eggjatínslu í Geirfuglaskeri og tókst ekki að bjarga honum fyrr en ári síðar. Allt var á huldu um hvað á daga mannsins hefði drifið á eyjunni, uns álfkona nokkur gaf sig fram við messu í Hvalsneskirkju og vildi kenn honum barn sitt.

Melabergsvegur

Melabergsvegur.

Maðurinn sór fyrir að vera faðir barnsins en við það féllu á hann álög huldukonunnar svo hann steyptist í hafið og breyttist í rauðhöfða illhveli. Hvalur þessi grandaði mörgum bátum, uns fjölkunnugur maður náði með göldrum að hrekja hann inn Hvalfjörð og upp í Hvalvatn, en þar hafa fundist hvalbein sem menn höfðu til sannindamerkis um söguna.
Neðan Melabergs er Lindarsandur, en þar kemur upp ferskt vatn undan klöppunum.

Másbúðarhólmi

Másbúðarhólmi

Másbúðarhólmi.

Í Másbúðarhólma voru mikilvægar bækistöðvar konungsútgerðarinnar og eru þar enn miklar verminjar. Másbúðir voru einnig vetvangur fyrsta byssubardaga Íslandssögunnar árið 1551. Þá sóttu norðlenskir hefnendur að tveimur fylgdarsveinum Kristjáns skrifara, drápu annan en hinn slap eftir að hafa skotið einn norðanmanna á flóttanum.

Fuglavík
Fuglavík var fyrr á tímum stórt útgerðarhverfi og voru þar einkum vermenn frá öðrum landshornum. Samhliða fiskveiðunum var þar mikil sölvatekja en Íslendingar treystu um aldir mjög á söl, bæði til manneldis og sem skepnufóður.

Sandgerði

Básendar

Básendar – festarhringur.

Sandgerði er með elstu höfuðbólum á Suðurnesjum. Þaðan hefur alla tíð verið stunduð mikil útgerð enda Sandgerði einhver mikilvægasta verstöð landsins, á sama tíma og dró úr mikilvægi flestra annarra verstöðva á Rosmhvalsnesi.
Árið 1990 fékk Sandgerði kaupstaðarréttindi og er með yngstu kaupstöðum landsins.

Bæjarsker

Bæjarsker er ef til vill elsta höfuðból Suðurnesja en margt bendir til þess að þar hafi búið Steinunn gamla, sem Ingólfur Arnarson gaf mestallan norðanverðan Reykjanesskaga.

Býjaskersrétt

Býjaskersrétt.

Væntanlega hefur Steinunn stundað útgerð af kappi, en Bæjarskerseyrin þótti lengi ein besta veiðistöð Suðurnesja. Landbrot vegna ágangs sjávar hefur þó leikið eyrina grátt og eftir ofsaflóð veturinn 1769 og síðar Básendaflóðið 1799 hnignaði útgerð þar mjög.

Hvalsnesgata

Hvalsnesgata.

Flankastaðir
Að Flankastöðum voru fyrr á tímum haldnir vikivakar og jólagleði. Ýmsir kirkjunnar þjónar höfðu horn í síðu þessara dans- og gleðisamkoma sem þeir töldu ýta undir drykkjuskap og lauslæti. Voru þessar samkomur því bannaðar um 1745. Var því spáð að prestinum Árna Hallvarðssyni ætti eftir að hefnast fyrir tiltækið og gekk það eftir þegar hann drukknaði á voveiflegan hátt.

Kirkjuból

Kirkjuból

Kirkjuból.

Kirkjuból var forðum þar sem nú heitir Gamlaból. Þar var áður höfðingjasetur og vetvangur sögulegra atburða. Árið 1433 gerðist það að hópur manna úr lífverði Jóns Gerrekssonar Skálholtsbiskups, undir forystu Magnúsar kæmeistara,bryta í Skálholti, brenndi bæinn til ösku. Með því vildu þeir hefna fyrir niðurlægingu Magnúsar, en heimasætan á bænum , Margrét slap þó úr eldinum ein manna og sór þess dýran eið að giftast hverjum þeim manni er kæmi fram hefndum. Sá maður reyndist vera Þorvarður Loftsson höfðingjasonur frá Möðruvöllum. Árið 1551 dró svo aftur til tíðinda að Kirkjubóli, en þá hefndu norðlenskir vermenn aftöku Jóns Arasonar Hólabiskups árið áður. Fóru þeir fjölmennu liði að umboðsmanni konungs, Kristjáni skrifara og mönnum hans,myrtu alla og svívirtu líkin. Því næst héldu þeir út á Álftanes, handsömuðu böðulinn sem tekið hafði biskupinn af lífi og neyddu hann til þess að drekka bráðið blý. Tókst danska konungsveldinu að koma lögum yfir fæsta þessara manna.

Skagagarðurinn

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Skagagarðurinn forni sést enn skammt norð-austur af Kolbeinsstöðum. Garðurinn er sennilega frá 10. öld og girti nyrsta hluta Rosmhvalsness frá öðrum hlutum Reykjanesskaga. Garðurinn er aðlíðandi norðanmeginn en hár og lóðréttur til suðurs, enda hefur honum væntanlega verið ætlað að halda sauðfé frá miklum kornökrum sem voru nyrst á skaganum.

Hafurbjarnastaðir

Að Hafurbjarnarstöðum hefur verið bær allt frá landnámsöld. Þar fannst árið 1868 kumlateigur úr heiðni sem telja verður einn merkasta fornleifafund Íslandssögunnar, en dr. Kristján Eldjárn lauk rannsóknum á honum árið 1947. Í teignum voru bein sjö eða átta manna auk ýmissa gripa. Heillegasta beinagrindin er varðveitt í glerkassa á Þjóðminjasafni Íslands eins og margir munu kannast við.

-www.sandgerdi.is

Þórshöfn

Þórshöfn.