Þorbjarnastaðir

“Framtíð Hrauna við Straumsvík er óráðin, en samkvæmt aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1995-2015 er gert ráð fyrir að stór hluti svæðisins verði notaður undir hafnar- og iðnaðarsvæði. Fyrir nokkrum árum stofnaði áhugafólk um verndun Hrauna, Umhverfis- og útivistarfélag Hafnarfjarðar, til þess að vekja athygli á þessu einstaka svæði.

Fuglalíf

Í frétt í MBL, þriðjudaginn 6. júlí, 1999, sagði Magnús Gunnarsson, þáverandi bæjarstjóri, að engin ákvörðun hafi verið tekin um framtíð svæðisins.
Hraun kallast landsvæðið vestan og sunnan Straumsvíkur, en víkin hefur myndast milli Lambhagatanga að austan og Hrauna að vestan. Hraunið sem þekur svæðið er 5000-7000 ára gamalt helluhraun sem átt hefur upptök sín í Hrútagjárdyngju.
Búskapur hefur verið stundaður í Hraunum frá fornu fari og hafa verið leiddar líkur að því að rústir við Óttarsstaði séu frá 12. öld. Á svæðinu má sjá fjölda rústa, tóftarbrot býla og gripahúsa, minjar eru um útræði í fjörunni, þurrabúðir, fiskbyrgi, vörslugarðar og fiskreitir eru einnig sýnilegir. Helstu lögbýli í Hraunum voru Stóri-Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir og Lónakot. Þessum býlum fylgdu síðan hjáleigur og þurrabúðir, s.s. Gerði, Péturskot, Litli-Lambhagi, Þýskubúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Óttarsstaðagerði og Eyðikot. Heimild er um forna kirkju á svæðinu og grafreit.

Jónsbúð

Jónsbúð.

Árið 1999 fékk Umhverfis- og útivistarfélagið Bjarna F. Einarsson fornleifafræðing til að grafa prufuholur í Jónsbúð, sem er þurrabúð eða hjáleiga utarlega við vestanverða Straumsvík. Bjarni hafði áður verið fenginn til að leita að og staðsetja rústir á svæðinu og segir í skýrslu hans að minjar eins og rústirnar við Jónsbúð séu mikilvægur minnisvarði um ákveðna búskaparhætti og að minjar af slíku tagi sé ekki að finna annars staðar á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Yfirleitt má segja að rústir og minjar á svæðinu séu óspilltar af mannavöldum og svæðið geymi í heild sinni allar þær minjar sem búast megi við að finna í og við þurrabúðir og hjáleigur. Byggð tók að leggjast af í upphafi þessarar aldar og var horfin um miðja öldina.

Óttarsstaðastekkur

Óttarsstaðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Auk merkilegra sögulegra heimilda er náttúrufar með nokkuð sérstæðum hætti á þessu svæði. Í hrauninu má finna fjölda ferskvatnstjarna sem koma og fara eftir sjávarföllum þegar sjórinn flæðir inn undir hraunið og streymir síðan út aftur á fjöru. Vegna þess að ferskvatnið, sem flæðir stöðugt undan hrauninu, er eðlisléttara en saltvatnið flýtur það ofan á sjónum meðan flæðir að, en blandast honum síðan þegar flóðið nær hámarki.

Áður fyrr voru börn látin vakta sjávarföllin til þess að ná fersku vatni úr tjörnum og brunnum áður en sjórinn náði að blandast ferskvatninu við háflæði. Í tjörnum sem ekki þorna alveg upp á fjöru hafa nýlega uppgötvast dvergbleikjur sem verða um 12-14 cm og lifa á skilum ferskvatns og sjávar.

Óttarsstaðir

Straumur og Óttarsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Magnús Gunnarsson, bæjarstjóri, segir í fyrrgreindri MBL-frétt 19999 að ekkert hafi verið ákveðið varðandi skipulag á Hraunasvæðinu. “Ljóst er að menn fara sér hægt við að skipuleggja framtíð þess.” Hann kvaðst sannfærður um að menn myndu staldra við og velta hlutunum vel fyrir sér og sérstaklega þeirri staðreynd að ekki væri hægt að taka til baka það sem gert yrði. Ljóst væri að mikil vakning ætti sér stað varðandi varðveislu náttúru- og sögulegra minja og að engar hafnarframkvæmdir væru áætlaðar á næstu árum vestan Straumsvíkur. Í þeirri vinnu sem framundan væri í skipulagsmálum yrði stigið varlega til jarðar, sérstaklega varðandi perlur eins og Hraunin væru.”

 

Nú, 2008, hefur Samfylkingin í Hafnarfirði uppi áform um að eyðileggja flestar menningarminjarnar á norðanverðu Hraunasvæðinu og þar með hið fjölbreytilega dýralíf sem og hina dýrmætu útivistarmöguleika bæjarbúa.
veggurÍ frétt í Fjarðarpóstinum 11. september (af öllum dögum, en þó vel við hæfi) kom m.a. eftirfarandi fram um þessar áætlanir undir fyrirsögninni: “Nýtt hafnarsvæði á Hraunum? – Hugmyndir eru uppi um nýja stórskipahöfn vestan Straumsvíkur.
„Okkar fyrstu niðurstöður eru þær að fýsilegt sé að byggja nýja höfn vestan Straumsvíkur sem að mestu yrði í landi Óttarstaða,“ segir formaður hafnarstjórnar. „Við höfum einnig kannað möguleikana austan Straumsvíkur, en þar reyndust ekki vera ákjósanlegar aðstæður. Við höfum í samvinnu við Siglingastofnun kannað öldufar og rannsakað botnlög með tilliti til hafnar gerðar vestan Straumsvíkur og virðast aðstæður þar allgóðar. Þetta yrði stór höfn sem þjónað gæti stórum hluta siglinga til höfuðborgarsvæðisins og skapað mikla uppbyggingu og atvinnustarfsemi.“

Straumur

Straumur – uppdráttur ÓSÁ.

Að sögn formannsins eru hugmyndirnar sem hér eru kynnntar hins vegar á frumstigi. Tillögurnar voru kynntar í hafnarstjórn í júní og í skipulags- og byggingarráði á þriðjudaginn. Næsta skref er að sögn formanns að ræða við landeigendur á svæðinu sem eru allmargir. Stefnt er að því að kynna þessar hugmyndir fyrir bæjarbúum og skapa um þær umræðu. Ljóst er að skoðanir verða skiptar um þessar tillögur en við hafnargerðina hverfa margar minjar en gert er ráð fyrir að vernda bæjarstæði Óttarstaðabæjanna í einskonar vin á miðju athafna svæðinu. Einnig yrðu Þýskabúð og Jónsbúð óraskaðar.
Landslagsarkitekt var fenginn til að útfæra þessar fyrstu hugmyndir og aðlaga þær lands laginu þannig að sem best fari, að sögn formanns, „en auðvitað á þetta eftir að fara í umhverfismat og í gegn um skipulagsferil,“ sagði formaðurinn.
HugmyndirSkv. hugmyndunum er gert ráð fyrir að meðfram nýrri legu Reykjanesbrautar verði hafnarsvæði lækkað um 12-14 m en næst sjónum yrðu 6-8 m varnargarðar til að skilja svæðið að en það er um 160 ha. (1,6 millj. m²) sem er svipuð stærð og svæði sem afmarkast af Hjallabraut, Hjallahrauni, Reykjanesbraut, Hvammabraut og Suðurgötu. Hafnargarðurinn yrði gerður úr efni sem þarna fengist en hann yrði skv. hugmyndunum gerður í tveimur áföngum.”

Tjörvagerði

Tjörvagerði.

Segja má með sanni að Samfylkingin hafi tilhneigingu til að vernda minjar og náttúru með vinstri hendinni, en rífa hvorutveggja niður með þeirri hægri. “Vonandi verða hvorki hugmyndir né fulltrúar þeirra langlífir”, varð einum rólyndismanni að orði er hann heyrði tíðindin. Mörg dæmi eru um að vilji til að takmarka verndun minja innan stórra athafnasvæða hafi farið fyrir lítið er á reyndi.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Segja má að einstakir fulltrúar og skipulagsyfirvöld í Hafnarfirði hafi að undanförnu verið í tómu klúðri – sem virðist það því miður fara vaxandi.
Umhverfi og náttúra í Hraunum er einstök á landsvísu og þótt víðar væri leitað. Hluti þeirra njóta náttúruverndar. Auk þess mynda Hraunabæirnir ofan við ströndina heilstætt og dýrmætt minjasvæði með tilheyrandi útstöðvum ofar í hraununum; seljum, fjárskjólum, nátthögum og aðliggjandi götum. Svæðið sem heild er því einstaklega dýrmætt, ekki síst vegna þess hversu nálægt þéttbýlissvæði það er. Þessu virðist eiga að farga án teljandi hugsunar.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – örnefni (ÓSÁ).

Samstarf og samnýting Faxaflóahafna hefur dregið úr þörfinni á hafnargerð sem þessari, enda koma aðrir staðir á höfðuborgarsvæðinu mun betur til greina en landssvæðið þar sem Hraunin eru.
Sjá meira um svæðið HÉR og HÉR. Vefsíðan geymir uppdrætti af u.þ.b. 400 minjasvæðum og yfir 6000 lýsingum á Reykjanesskaganum, auk fróðleiks og frásagna af minjum og örnefnum á svæðinu – fyrrum landnámi Ingólfs. Allt efnið er unnið af áhuga og umhyggju – án ríkisstyrkjar.

Heimildir m.a.:
-Mbl – Þriðjudaginn 6. júlí, 1999 – Smáfréttir
-fjardarposturinn.is – 11. september 2008
http://www.fjardarposturinn.is/images/FP-pdf/FP-2008-34-skjar.pdf

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestri.