Selatangar

Á Selatöngum eru minjar gamallar verstöðvar.

Selatangar

Selatangar – verkhús.

Núverandi minjar eru líkast til u.þ.b. tveggja alda gamlar. Þær hafa eflaust tekið breytingum allnokkrum frá því að verstöðin var fyrst notuð sem slík. Á Selatöngum má enn sjá greinilega tóftir tveggja búða (Vestari búð og Austari búð) auk þess sem sést móta fyrir útlínum þeirrar þriðju miðsvæðis. Þar eru og a.m.k. þrjú verkunarhús þar sem gert var fyrst að fiski, þurrkbyrgi, þurrkgarðar, þurrkreitir, brunnur, smiðja, skútar með fyrirhleðslum, hesthús, Nótarhellir (þar sem dregið var fyrir sel), Mölunarkór, Sögunarkór og Smíðahelli, auk gamalla gatna og hlaðinna refagildra. Vestan við Seltanga er hið merkilega náttúrufyrirbrigði “Ketillinn” í Katlahrauni og fjárskjól þeirra Vigdísarvallamanna.

Selatangar

Jón Guðmundsson við brunninn á Selatöngum.

Undirritaður gekk einn góðan sumardag árið 2002 um Selatanga með Jóni Guðmundssyni frá Ísólfsskála, sem hann man eftir minjunum eins og þær voru þegar hluti verstöðvarinnar var enn í notkun. Hann lá þar með föður sínum í Vestustu búðinni árið 1926 er Skálabóndi gerði enn út frá Töngunum. Jón minnist þess vel að reki var reiddur þaðan að Ísólfsskála eftir vestari Rekagötunni, sem mótar enn vel fyrir og liggur í gegnum Ketilinn og áleiðis heim að Skála. Leiðin er vörðuð að hluta, en víða sjást för eftir hófa og fætur liðinna alda í klöppinni. Austari Rekagatan liggur til norðurs vestan vestari Látra. Rekagötunar voru einnig nefndar Tangagötur og jafnvel Lestargötur, allt eftir notkun og tilgangi á hverjum tíma.
Tækifærið var notað og svæðið rissað upp eftir lýsingu Jóns. Fylgir það þessum skrifum. Sennilega er þetta eina kortið, sem dregið hefur verið upp af þessari verstöð, þeirri einu sem eftir er á Reykjanesi.

Selatangar

Selatangar – þurrkbyrgi.

Jón sýndi undirrituðum m.a. Smíðahellinn, Sögunarkórinn (Mölunarkórinn), Nótahellinn, hlöðnu refagildrurnar, brunninn, búðirnar, fiskvinnslubyrgin, þurrkbyrgin, þurrkgarðana, smiðjuna, skútana, lendinguna og Dágon (landamerkjastein Ísólfsskála og Krýsuvíkur, en verstöðin er að mestu
innan landamerkja síðarnefndu jarðarinnar). Á sléttri klöpp neðan við Dágon eru klappaðir stafirnir LM (landamerki). Þá benti hann á lendinguna, skiptivöllinn o.fl. Ljóst er að ströndin hefur tekið miklum stakkaskiptum á síðustu áratugum og þarf að meta aðstæður á staðnum með tilliti til þess. Sjórinn hefur nú að mestu brotið skiptivöllinn sem og Dágon . Einnig hefur hann brotið niður byrgi og búðir næst ströndinni. Til merkis um það hefur miðverkunarhúsið syðst á Töngunum látið mikið á sjá á skömmum tíma. Fyrir ári síðan var það að mestu heilt, en sjórinn hefur nú brotið niður suðurhlið þess.

Selatangar

Selatangar – sjóbúð.

Jón taldi almennan misskilning ríkja um hlaðna fjárbyrgið norðan við Ketilinn. Sumir telja það mjög fornt, en það hefði í rauninni verið hlaðið af föðurbræðrum hans frá Vigdísarvöllum skömmu eftir aldarmótin 1900 vegna þess að fé þeirra Vígdísarvallamanna hefði tíðum leitað í fjöruna og þeir þá átt í erfiðleikum með að reka það hina löngu leið til baka. Því hafi skútinn verið hafður þarna fénu til skjóls.
Verstöðin hefur sennilegast notuð þegar á miðöldum. Hraunið (Ögmundarhraun) er frá því um 1150, en það ár lagði það gamla Krýsuvíkurbæinn í Húshólma, sem er þar litlu austar, í eyði. Reru frá Selatöngum meðal annarra skip Skálholtsstóls, auk þess menn alls staðar af landinu lágu þar í veri. Síðast var róið 1884, en selveiðar voru stundaðar nokkur ár eftir það. Þó var oft lent síðar ef lending var ófær annars staðar meðan róið var á opnum skipum, s.s. frá Þórkötlustöðum, Hrauni og víða. Við Dágon eru landamerki Ísólfsskála og Krýsuvíkur.

Selatangar

Selatangar – verkhús.

Á Selatöngum sjást enn miklar rústir verbúða hlöðnum úr hraungrýti svo og rústir af fiskbyrgjum þar sem hertur fiskur var geymdur. Á görðunum, sem enn sjást, var einnig hertur fiskur þegar veður gaf. Sums staðar er hlaðið fyrir hraunhella og þeir notaðir sem sjóbúðir eða byrgi. Vestan við Selatanga er hellir sem hafður var til eldamennsku – mötuneyti þess tíma. Einnig má sjá þar refagildrur frá síðustu öld.

Á Selatöngum var afturgangan Tanga-Tómas svo hatröm að ekki þýddi að skjóta á hana silfurhnöppum sem yfirleitt dugðu helzt á drauga, en frekast dugðu lambaspörð. Auk Tanga-Tómasar eru margir aðrir draugar á ferli á Selatöngum og í nágrenni þeirra, einkum þegar skyggja tekur.

Selatangar

Selatangar- Tanga-Tómas með FERLIRSfélögum.

Í skýrslu um menningarminjar í Grindavíkurkaupstað segir m.a. um Selatanga:
1703: “Jörðin á í sínu landi, en þó allfjarri, skipsuppsátur og brúkar heimabóndinn það um vertíð fyrir sig og hjáleigumenn sína. Öngvar eru þar verbúðir aðrar. Og er þó lending merkilega slæm, heitir “plátsið” á Selatöngum”, segir í jarðabók Árna og Páls.
1756: “Selatangi við Krýsuvík er lítill, en vel fallinn til sjósóknar, en ströndin er klettótt og lending ill sakir brima”, segir í Ferðabók Eggerts og Bjarna.

Selatangar

Miðrekar.

“Þegar kemur vestur fyrir Miðrekana og landinu fer að sveigja til norðurs, taka við Seltangar…. Á Seltöngum var fyrrum mikil útróðrastöð og verstöð. Er þar enn allmikið af búðarústum og fiskigörðum til herslu á fiski.
Hér er mikið af hraunhellum, þótt flestir séu þeir litlir, voru þeir notaðir til ýmissa hluta og hlutu nöfn af. Nokkru eftir 1880 lagðist útræði hér niður að fullu og öllu”, segir í örnefnalýsingu Krýsuvíkur.

Selatangar

Selatangar – refagildra.

“Austan við Hraunnef [þar sem leiðin er hálfnuð út á Selatanga er]…. Veiðibjöllunef… Austan við Veiðibjöllunef kemur Mölvík… þar upp af Mölvík austan til heitir Katlahraun… Austast í Katlahrauni er Nótarhellir og gengur í sjó fram…. Fyrir austan Nótarhellir er sandfjara og síðan taka við Selatangar”, segir í örnefnaskrá Ísólfsskála.
“Nokkuð austan við bæinn á Ísólfsskála, sem svarar klukkutíma gang, gengur tangi fram í sjóinn. Hann heitir Selatangar”, segir í örnefnaskrá AG um Ísólfsskála.
Friðlýstar minjar: “Verbúðartóftir, fiskbyrgi, fiskigarðar og önnur gömul mannvirki í henni fornu verstöð á Selatöngum”.

Selatangar

Selatangar – austasta verbúðin.

Á Selatöngum var aldrei föst búseta, heldur einungis útver með nokkrum verbúðum. Þaðan var einkum útræði Krýsuvíkurmanna, en Krýsuvík fylgdu lengi nokkrar hjáleigur.
Til er gömul þula sem telur 73 (aðrir segja 82) menn við róðra í Krýsuvík. Ástæðan fyrir þeim kveðskap er sögð vera sú, að strákur einn hafði orðið mötustuttur í verinu….. Líklegt er að bæði Krýsuvíkurbændur og Vigdísarvallabændur hafi gengið til skips, en ekki haldið til í verinu.
Þótt aldrei væri stórt útver á Selatöngum eru þó þar talsverðar verminjar. Þaðan var seinast róið 1884, skv. upplýsingum á skilti við bifreiðastæðið. Heimildir eru þó um að þarna hafi verið útræði frá Skála 1913.

Selatangar

Gengið um Katlahraun og nágrenni.

Guðrún Ólafsdóttir lýsir rústunum svo í skýrslu frá 1993: “Þarna eru nú minjar um verbúðir, fiskbyrgi og garðhleðslur sem eru að mestu horfnar. Rústirnar eru margar og er hægt að telja þær upp undir 20, auk garðhleðslanna sem eru á hraunnefunum og eru nú að mestu horfnar. Á vestustu hraunnibbunni er verbúð og rústir, auk garðhleðsla. Á næstu nibbu austan við eru rústir sömuleiðis, en hraunnibban er aðgreind frá þeirri vestari af sandi. Hinar rústirnar eru svo á þriðju nibbunni sem myndar samfelldara og stærra svæði en hinar og þar eru líka flestar rústirnar. Austast á þessu svæði er önnur verbúðartóft og byrgi í líkingu við það sem er vestast.

Selatangar

Selatangar – Smíðahellir.

Utan í hraunflákanum að austan eru fyrirhleðslur við skúta sem virðast hafa verið notaðir af fé. Margar hleðslurnar hafa farið verulega illa í flóðum undanfarin ár. Verbúðartóftin vestari er undir hraunbrúninni og er mjög fallinn, þó má greina húsaskipan. Rústin er hlaðin úr grjóti og torfi en hraungrjót er meginbyggingarefnið, enda hefur skort torf í hraunhafinu sem umlykur Selatanga að sjó. Við rústina að norðan- og sunnanverðu eru byrgi sem þarf að varðveita. Allt í nágrenninu eru svo hlaðnar rústir sem þarf að huga að. Nokkur byrgi eru uppistandandi og vel farin og slaga þau uppí að vera mannhæðarhá…. Stórflóðin á undanförnum árum hafa farið illa með rústirnar. Rústirnar eru á hraunnibbum sem skaga út frá Ögmundarhrauni og utan í þeim”.

Selatangar

Fjárskjól í Katlahrauni.

“Á Selatöngum var allmikil útgerð frá Skálholti í eina tíð, en lagðist fyrst niður um tíma eftir Básendaflóðið 1799 og svo að fullu og öllu milli 1880 og 1890. Þarna eru byrgi og búðatættur, sem eru nú friðlýstar. Dágon var klettur á kampinum suður af vestustu sjóbúðinni á Selatöngum, en er nú hruninn… Skiptivöllur er smáhæð fyrir austan Dágon, grasivaxinn að ofan. Sjóbúðirnar standa austan undir Skiptivelli á hraunnefi”, segir í örnefnaskrá Ísólfsskála.

Selatangar

Fiskbyrgi á Selatöngum.

“Á Selatöngum sjást byrgi og búðatættur, eldhús og önnur mannvirku, enda var þarna allmikil útgerð fyrir eina tíð…”, segir í Örnefnaskrá AG um Ísólfsskála.
Árið 1799 skemmdust nær öll mannvirki á reykjanesi er voru næst sjónum. Auk þess hefur sjórinn verið að naga smám saman af ströndinni í gegnum aldir. Ljóst er því að núverandi minjar á Selatöngum geta varla verið eldri en frá því um 1800. En þær eru eftir sem áður minnismerki um verstöð á Selatöngum um langan aldur og áþreifanlegur vitnisburður um sjósóknina fyrrum og horfna starfshætti.

ísólfs

Gengið um Selatanga.

Sjá má mikinn fróðleik um Selatanga í bæklingi Ferðamálafélags Grindavíkur – Seltangar, merkar minjar í umdæmi Grindavíkur.

ÓSÁ tók saman.

Selatangar

Selatangar – vel má sjá hversu erfitt útferið hefur verið utan við Tangana.