Landrof

Gróður breytist frá einum tíma til annars. Margt getur haft áhrif á það. Reykjanesskaginn er ágætt dæmi um miklar gróðurbreytingar frá upphafi landsnáms til dagsins í dag.

Krýsuvík

Gróðureyðing á Krýsuvíkurheiði.

Gróður- og jarðvegseyðing er að mati margra fræðimanna alvarlegasti umhverfisvandi Íslendinga. Ekki er til vel rökstutt mat á því hvar mörk samfellds gróðurs lágu inn til landsins við landnám, né hve stór hluti landsins var skógi eða kjarri vaxinn. Hitt er óumdeilanlegt að hér urðu mjög snögg umskipti á gróðurfari fljótlega eftir að land byggðist. Frjókornarannsóknir hafa sýnt að láglendi var að miklu leyti skógi eða kjarri vaxið við landnám. Landið hefur því tapað nær öllum sínum skógum og kjarri og hugsanlega meira en helmingi gróðurþekju sinnar á síðastliðnum 1100 árum. Víða í byggð virðast umskipti frá skógi eða kjarri í nær skóglaust land hafa verið snögg og ef til vill aðeins tekið einn til tvo mannsaldra. Jarðvegur breyttist einnig. Jarðvegur myndaður eftir landnám er víða grófkornóttur með lélega samloðun, hann er ljósari og með miklu meira af áfoksefnum en jarðvegur frá því fyrir landnám. Jarðvegsbreytingarnar sýna hversu þétt uppblásturinn fylgdi í kjölfar skógaeyðingarinnar.

Eldgos

Eldgos í Fagradalsfjalli.

Ísland er eitt virkasta eldfjallaland í heimi. Hér hafa orðið gos að meðaltali á um 5 ára fresti frá landnámi. Gosunum fylgir gjóska sem sest í jarðveginn og ljær honum óvenjulega eiginleika, bæði eðlisfræðilega og efnafræðilega. Gjóskan er eðlislétt – allir vita hve léttur vikur er. Vindur og vatn ná því að hreyfa og flytja kornin auðveldlega til. Þykk öskulög mynda lög í jarðveginum sem auðveldlega grefst undan eða fýkur burt þegar gróðurhulan verndar ekki lengur.

Sveifluháls

Sveifluháls.

Þá er Ísland ákaflega vindasamt land. Sé gróðurþekjan fjarlægð er jarðvegurinn mjög auðrofinn hvort heldur er af vindi eða vatni. Einkum hefur vindurinn verið afkastamikill. Verstu uppblástursskeiðin er ekki hægt að kalla annað en náttúruhamfarir. Dæmi er hinn hamslausi uppblástur sem geisaði í Landssveit og Rangárvöllum og náði hámarki undir lok 19. aldar og sem hefði getað lagt stóran hluta Rangárvallasýslu í eyði. Gróður eyddist annars vegar við uppblástur þannig að vindurinn reif burt jarðveg þar til ekkert varð eftir nema jökulurðin undir en hins vegar við það að þau ógrynni sands sem losnuðu og bárust but með vindi, lögðust yfir gróður annars staðar og kæfðu hann.

Gjóskusnið

Unnið við að sniðgreina gjóskulög í jarðvegssniði.

Þetta tvennt, tíð eldgos og vindasamt veðurfar, var vissulega til fyrir landnámen olli þó ekki verulegum skaða á gróðurþekju. Eldgos hafa ekki verið tíðari eftir landnám en næstu árþúsund þar á undan.
Sigurður Þórarinsson benti t.d. á að útbreiðsla skóga á Suðurlandi gæfu ekki til kynna að eldgos væru frumorsök að eyðingu skóga: helstu skógarleifar er þvert á móti að finna í nágrenni virkustu eldfjallanna.

Rof

Rof á Krýsuvíkurheiði.

Bæjarstaðarskógur er nálægt rótum Öræfajökuls, Næfurholtsskógur og Galtalækjarskógur eru í næsta nágrenni Heklu og í Skaftártungum, skammt austan Kötlu, er talsvert kjarr. Merki um staðbundinn uppblástur munu finnast í jarðvegi frá því fyrir landnám en þau eru fá. Meira að segja feiknarleg gjóskugos, miklu stærri en komið hafa eftir landnám, virðast ekki hafa valdið verulegri jarðvegseyðingu. Hún hófst ekki fyrr en þriðji þátturinn bætist við með umsvifum mannsins.

Rofabarð

Rofabarð.

Því er stundum haldið fram að jarðvegseyðingu megi rekja til kólnandi loftslags. Fátt bendir til þess að svo sé. Uppblástur hófst skömmu eftir landnám og áður en veðurfar tók að kólna að ráði nálægt 1200. Þorleifur Einarsson taldi til dæmis að á þeim tíma hafi holtin umhverfis Reykjavík verið orðin gróðurvana og uppblástur þar um garð genginn. Annað sem mælir á móti því að frumorsök hnignandi gróðurfars hafi verið kólnandi loftslag er að skógar virðast víða hafa haldist lengst inn til landsins, á mörkum byggðar og óbyggða sem sést til dæmis á breyttum skógarítökum kirkna. Þar hefðu þeir þó átt hörfa fyrst vegna kólnandi loftslags. Litla ísöldin hefur þó lagst á sveif með eyðingaröflunum og haft áhrif, til dæmis í stærri jökulfljótum sem brutu gróið land, meiri jökulhlaupum og í framskriði jökla sem skildu seinna eftir sig gróðurvana auðnir og báru oft einnig fram fínkornótt efni sem farið gat á flakk.

Oddafellssel

Oddafellssel – í selstöðum frá örófi alda hefur gróður haldist allt til þessa dags þrátt fyrir gróðureyðinguna umhverfis.

Það sem líklega skipti sköpum og hrinti af stað vítahring jarðvegseyðingar eftir landnám er að gjóskufall hefur miklu afdrifaríkari afleiðingar fyrir gróður á skóglausu landi. Nokkurra tuga sentimetra gjóskufall getur kæft gróður á graslendi og þar sem beit eða sláttur hefur tekið ofan af gróðri, og náð að drepa allar plönturnar sem flestar hafa sína vaxtarbrodda neðanjarðar, í sverði eða rétt ofan við yfirborð. Þá liggur gjóskan óvarin fyrir vindi og vatni og verður upphaf að sandfoki og frekari gróðureyðingu á nærliggjandi svæðum þegar aðflutt efni kæfa gróður á nýjum stað. Jafnþykkt gjóskulag kann að hafa lítil áhrif á skóg og kjarrlendi þar sem eru tré og runnar sem standa upp úr. Botngróður deyr en hávaxnari gróður heldur að gjóskunni og kemur í veg fyrir að hún fari að fjúka, og skapar auk þess betri skilyrði fyrir uppvöxt botngróðurs á nýjan leik.

Hér má heyra í Ríó Tríóinu; “Landið fýkur burt” – Sjá og HEYRA.

-Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor í líffræði við HÍ.
-http://www.land.is/landbunadur/wglgr.nsf/key2/hofudstodvar.html
-https://www.youtube.com/watch?v=mBwrzCNSP0s

Rof

Landrof.