Hnúkar

Á landakortum koma oft fram misvísandi upplýsingar. Þar eru t.d. staðsettur Kvennagönguhóll í Selvogi er Hnúkar heita. Hinn réttnefndi Kvennagönguhóll er sunnar og neðan við Hnúkana. FERLIR gekk á dögunum niður að hólnum. Segir sagan að þangað hafi konur, gamalt fólk og lasburða úr Selvogi gengið til að líta krossinn helga í Kaldaðarnesi augum. Hafði hann slíkan lækningamátt að hver sem rak hann augum gat læknast af meini því sem viðkomandi hrjáði. Þótt Kvennagönguhólar virðist vera eins og hverjir aðrir slíkir í landslaginu er hér um mjög merkilegan stað að ræða í sögu landsins.

Selvogsheiði

Selvogsheiði – kort.

Þegar kaþólskan vék fyrir lútherskunni varð krossinn þrándur í götu kirkjuvaldins. Segir sagan að Gissur biskup Einarsson hafi látið taka niður krossinn í kirkjunni í Kaldaðarnesi og sett hann á afvikinn stað. Á þessum krossi hafi hvílt mikil helgi og fjöldi fólks streymt í Kaldaðarnes á stórhátíðum til þess að gera þar bæn sína að krossinum. Þangað hafa og iðurlega verið farnar heitgöngur, þegar á bjátaði, og krossinum verið gefið stórfé.
Gissur biskup sendi prestum sínum áminningarbréf í vetur nokkru eftir áramótin og skipaði svo fyrir, að það skyldi lesið í öllum kirkjum biskupsdæmisins á krossmessu, helgum dómum til fordæmingar.
Bréfið sagðist hann skrifa sökum þess, að forn trú, er þann nefndi blindleika og hjátrú, haldist við í biskupsdæminu, og fólk láti ekki af því að leita líknar og huggunnar “hjá svo auðvirðulegum hlutum sem hjá einum og öðrum líkneskjum, sérlega hjá þeirri róðukrossmynd, sem hér er í Kaldaðanesi, með áheitum, fórnfæringum og heitgöngum, þvert á móti guðs boðorðum og vorrar trúar artikúlum.”

Kaldaðarnes

Kaldaðarnes – kirkjuhlið.

Þessu til áréttingar reið biskup síðan í Kaldaðarnes og fjarlægði krossinn. Hefur miklum óhug slegið á alþýðu manna, sem trúir sem fyrr staðfastlega á krossinn, við þessar tiltektir biskups.
Einhvern tímann á árinu 1560 eða 1561 var krossinum helga í Kaldaðarnesi tortímt. Gísli Skálholtsbiskup lét flytja hann í Skálholt og setti mann í að höggva hann sundur og brenna síðan brot og spæni. Fólkið bar harm sinn í hljóði. Var það blandið ugg og kvíða, því að mörgum bauð í grun, að land og þjóð myndi gjalda þess, er svo illa og ómannlega var farið með þann grip, sem mest helgi hefur verið á í öllum kirkjum landsins.

Heimild:
-Öldin okkar 1546-1547.

Kvennagönguhóll

Kvennagönguhóll.