FERLIR

Frá upphafi hafa þeir þátttakendur FERLIRs, sem lokið hafa a.m.k. fimm ferðum áfallalítið eða sýnt af sér sérstaka hæfni, áræðni eða fundvísi geta hugsanlega fengið FERLIRshúfu því til staðfestingar.
FerlirHúfan hefur merkingu og á sér uppruna. Hún hefur þann eiginleika að aðlagast höfði viðkomandi. Í henni eru varnir og bjargir er bæði verja eigandann fyrir aðsteðjandi hættum og geta bjargað honum úr vanda, sem hann er þegar kominn í. Auk þess fylgja henni ótímasettar eldgosa- og jarðskjálftavarnir, en áhrifaríkust eru þeir eiginleikar hennar að geta gefið eigandanum kost á að sjá í myrkri – ef rétt er snúið.
Á fimmta tug manna og kvenna hafa þegar öðlast þessa viðurkenningu FERLIRs. Handhafarnir bera nú húfur sínar með stolti, enda eru þær til marks um einstaka hæfileika þeirra.

FERLIR

Laufhöfðavarða.

Til gamans má geta þess að tvær húfur, sem týndust, komu í leitirnar skömmu síðar. Aðra hafði eigandinn lagt frá sér í Brennisteinsfjöllum. Þremur dögum síðar var bankað upp á hjá honum og honum afhent húfan. Hina fann eigandinn á snaga í rakarastofu í borginni og uppgötvaði þá að húfunni hafði hann týnt á Bláfjallasvæðinu rúmri viku fyrr. Þriðja húfan týndist svo norðvestan við Einbúa, sunnan við Kastið, fyrir stuttu. Hennar er vænst í hús innan tíðar.
Lygilegasta sanna sagan er þó sú er segir af FERLIRsfélaganum, sem varð það á að stíga óvart með annan fótinn fram af snjóhengju á bjargbrún. Honum til happs náði hann að grípa í húfuderið og að hanga á því nógu lengi til að geta stigið skrefið til baka á fast. Síðan hefur hann jafnvel og sofið með húfuna – svona til öryggis…

Ferlir

Ólafur, bæjarstjóri Grindavíkur, í ferð með FERLIR á Háleyjum.