Reykjanesskagi

Nútíminn hefur vaxandi áhuga á umhverfi og umhverfisvernd, útivist og ódýrri heilsueflingu, ekki síst nú á tímum hækkandi eldsneytisverðs og kröfu um aukna ráðdeild. En hvað með söguna, varðveislu og nýtingu hinna áþreifanlegu minja?

Lindarsandur

Lindarsandur neðan Melabergs.

Á Reykjanesskaganum býr yfir helmingur Íslendinga, á einu fjölbreyttasta útivistarsvæði landsins, en jafnframt því vannýttasta. Á svæðinu er mikill fjöldi sögulegra minja er enduspegla búsetu- og atvinnuþróun þess frá upphafi landnáms. Lítill hluti þeirra hefur verið skráður og hlutfallslega fáar áhugaverðar minjar hafa beinlínis verið varðveittar með markvissum aðgerðum eða áætlunum um að gera þær aðgengilegar fólki. Í minjarnar má lesa, líkt og á handritin, söguna frá upphafi, stig af stigi, svo og menningu hvers tíma. Tóftir gamalla bæja, sjóbúðir, sel og selstöður, stekkir, kvíar, nátthagar, hleðslur, fjárborgir og hellar, fjárskjól, þjóðleiðir, mörk og merkingar auk dysja, brunna, flórgólfa, nausta og vara eru minjar genginna kynslóða. Hvert sem farið er liggur sagan geymd – en alls ekki öllum gleymd.

Selalda

Selalda – fjárhús.

Ótaldar eru náttúruminjarnar, sem margar hverjar eiga hvergi sína líka, faldar í hraunum, hlíðum, dölum, fjöllum, hálsum og við læki og vötn.
Lítill áhugi virðist hafa verið fyrir því að rannsaka og/eða endurgera valdar minjar á svæðinu, reisa tilgátumannvirki eða gera söguna aðgengilegri og nýtanlegri en verið hefur. Og það þrátt fyrir að nýyrði eins og “heilstætt búskaparlandslag”, “menningarlandslag” og “sögutengd ferðaþjónusta” hafi hvergi frjósamari jarðveg en einmitt þar.
Allir hafa í raun gott af því að vita af uppsprettunni og gera sér grein fyrir hvar rætur þeirra hafa fengið vökvun um langan tíma, hvaðan droparnir komu og hvernig þeir viðhéldu gróðurlífinu. Uppruninn skiptir máli – hver sem hann er. Þangað sækir fólk næringuna. Sumt af því virðist kannski við fyrstu sýn ekkert sérstaklega burðugt eða til þess fallið að vekja stolt, en þegar betur er að gáð verður raunin önnur – allt önnur. Hún gefur fullt tilefni til að nýta blómin – arfinn – okkur sjálfum og komandi kynslóðum til heilla.

Selatangar

Selatangar – verkhús.

Minjasagan lýsir vel einkennum þjóðarinnar og hvernig hún nýtti landkosti og efni öðruvísi en aðrar þjóðir, hvernig dreifing útvegsbændabyggðarinnar var með ströndum landsins, nýting innlandsins og önnur hagnýting landsgæðanna. Hver var t.a.m. ástæðan fyrir því að landsmenn bjuggu í “moldarhólum” og hlöðnum byrgjum langt fram eftir öldum á meðan fólk víðast hvar annars staðar í Evrópu hafði búið í steinhúsum um árþúsundir? Á Reykjanesi má sjá ástæður þessa og þar er einnig hægt að sjá bæði þróun híbýlanna hér á landi og upphaf steinhúsabygginganna á 19. öldinni – ef vel er að gáð. Fyrsti hlaðni steinviti landsins var reistur á Valahnjúk á Reykjanesi og svo mætti lengi telja. Um hann og ótalmargt annað, bæði fyrst og merkilegast, er fjallað á vefsíðu þessari.

Arnarvatn

Arnarvatn á Sveifluhálsi.

Algengara er í seinni tíð að hópar eða jafnvel vinnustaðafélagar taki sig saman og skipuleggi stuttar gönguferðir starfsmanna. Um er að ræða ódýrt en hollt ráð til að bæta heilsu og líðan þeirra, sem hlut eiga að máli, en jafnframt kjörið tækifæri til að kynnast sögu, minjum og umhverfi svæðisins. Stutt er á þau mið sem og allt, sem til þarf. Frá Reykjavíkursvæðinu tekur t.a.m. ekki nema uþ.b. stundarfjórðung að komast á flest áhugaverðustu svæði Reykjanessins.
Ástæða er til að hvetja fólk til að hreyfa sig umfram hið venjubundna og að áhugasamt fólki nýti sér nálægðina til að kynna sér hið margvíslega sem umhverfið og svæðið allt hefur upp á að bjóða.

Stóra-Gerði

Stóra-Gerði í Staðarhverfi.

Gönguhópurinn FERLIR hefur nýtt undanfarin ár til að ganga um einstök svæði Reykjanesskagans. Upphaflega var markmiðið að fara eitt hundrað ferðir um svæðið til að skoða það helsta, en þrátt fyrir um 2000 ferðir, sem að jafnaði hafa tekið 1-5 klst hver, eru stór svæði enn ógengin og óskoðuð.
Hópurinn hefur á ferðum sínum um Reykjanesskagann leitað til fólks, sem fætt er eða uppalið á hinum ýmsu svæðahlutum. Hvarvetna hefur hópnum verið vel tekið og fólk verið ótrúlega áhugasamt og viljugt að miðla af fróðleik sínum og þekkingu. Berlega hefur komið í ljós að þetta fólk býr yfir bæði mikilli og ómetanlegri vitneskju um minjar og sögu staðanna. Þessu fólki fer því miður fækkandi og líklega kemur að því að margt af því, sem vitneskja er um í dag, hverfi með tímanum – nema eitthvað verði að gert til að varðveita það (umfram það ágæta sem þegar hefur verið gert).

Ferlir

FERLIRsfélagar á göngu um Almenningsveginn á Vatnsleysuströnd.

Komið hefur á óvart hversu ótrúlega mikið og margt Reykjanesskagasvæðið, bæði ofan og utan höfuðborgarsvæðisins, hefur útivistarfólki eða öðru áhugasömu fólki upp á að bjóða – fólki sem nennir að leggja svolítið á sig eða hefur áhuga á að fræðast, hreyfa sig eða skoða sig um.

Í ferðum FERLIRs hefur oft verið um að ræða gönguferðir utan alfararleiða og þá tækifærið verið notað og skoðaðar jarðmyndanir á svæðinu, flóra, fána, fjöll, dalir, hæðir og lægðir, hellar, minjar, s.s. sel, fjárskjól og brunnar, nátthagar, gjár, gamlar þjóðleiðir, vötn, námur, hverir, brunnar, flugvélaflök, eldgígar, eldborgir, vitar, hleðslur og skógræktir. Jafnframt hefur verið reynt að setja sig í spor og kynnast lífi fólks og aðstæðum þess hér á öldum áður, breytingum á staðháttum og þróun frá einum tíma til annars. Sumir staðanna, sem gengið hefur verið á, eru mjög viðkvæmir fyrir átroðningi og því kannski ekki beinlínis æskilegt að hvetja margt fólk til að fara þangað, en ef það er gert þarf ávallt að gæta þess að fara um með varkárni og af tillitssemi.

Leiðarendi

Hellirinn Leiðarendi í Stórabollahrauni.

Til gaman má geta þess að þátttakendur hafa fram að þessu skoðað um tvö hundruð og fimmtíu selstöður á svæðinu frá Hvalfjarðarbotni að Reykjanestá, auk allra mannvirkjanna, sem þeim fylgja, s.s. stekkir, kvíar, fjárskjól, gerði, brunnar, vatnsstæði og leiðir, gamlar hlaðnar réttir, um 600 hella og nafngreinda skúta, fjölmargar gamlar leiðir, gamla hlaðna brunna, letursteina og áletranir, vörður, sem tengdar eru einhverjum sögum, hlaðnar refagildrur sem og margt annað er ætti að þykja áhugavert.
Í ljós hefur komið að þótt einhver áhugasamur vilji kynna sér tiltekinn hluta svæðisins af einhverju viti, leita uppi allar minjar og fá samhengi í nýtingu þeirra, getur það tekið hann langan tíma.

Brynjudalur

Brynjudalur – í Þórunnarseli.

Mikilvægt er að alþingismenn, sveitarstjórnarfólk og ferðaþjónustuaðilar geri sér grein fyrir verðmæti og möguleikum svæðins, tjái sig jákvætt um það og af þekkingu, efli tiltrú annarra og skapi þannig grundvöll af enn fjölþættari nýtingu þess en verið hefur hingað til.

Mest um verð er þó sú innsýn, sem þátttakendur hafa öðlast á landssvæðið, breytingar á því í gegnum aldirnar, aðstæður fólksins og dugnað þess við takmarkaða möguleika og erfiðan kost. Þetta fólk á skilið mikla virðingu frá okkur afkomendunum. Mikilvægt er og að láta vitundina um það lifa áfram á meðal þeirra sem eiga að erfa landið. Þá er ekki síður mikilvægt að umgangast landið af varfærni og virðingu.

Á Ölkelduhálsi

Á Ölkelduhálsi.