Hafnarfjörður

Gísli Sigurðsson fjallar um “Eldstríð Hafnfirðinga” í Þjóðviljanum árið 1960. Greinin er sú fyrri af tveimur um sama efni:
gisli sigurdsson“Fyrr á tímum háðu Hafnfirðingar baráttu við eldinn, slíka að henni verður ekki betur lýst er með orðum mannsins er bezt hefur kynnt sér það mál: “Það var heimsstríð”. Maður er nefndur Gísli Sigurðsson, lögregluþjónn í Hafnarfirði. Í tíu ára hefur hann varið hverri frístund til þess að grafa úr gleymsku og forða frá glötun fjölmörgu úr sögu Hafnarfjarðar, sem ella hefði glatazt. Hann segir hér húsmæðrum er nú kveikja ljós og eld með snertingu við rafmagnshnapp (og fá vonandi enn fleiri slíka hnappa og aukna sjálfvirkni í eldhúsin) frá eldstríði formæðra þeirra.
Sögufélag mun ekkert vera til í Hafnarfirði (en örfáir Hafnfirðingar í Sögufélagi Ísfirðinga), en saga Hafnarfjarðar kom út á aldarfjórðungsafmæli Hafnarfjarðar sem kaupstaður árið 1933. Kjartan Ólafsson flutti tillögu í bæjarstjórninni um ritun slíkrar sögu og Sigurður Skúlason magister var ráðinn til verksins og fékk hann ekki nema tvö ár til þessa verks og því ekki að vænta að hann gæti grafið allt upp.
Gísli Sigurðsson lögregluþjónn hefur eytt til þess öllum frístundum sínum í tíu ár að safna til varðveizlu ýmsu er bregður ljósi yfir lífsbaráttu og störf fólksins á þessum stað. Hvort Hafnfirðingar meta þetta starf að verðleikum fyrr en löngu eftir að Gísli er genginn og grafinn skal ósagt látið, en seinni tíma menn verða honum þakklátir. Fyrir tilviljun komst ég á snoðir um þessar rannsóknir Gísla og spurði hann því nánar um málið.
— Ert þú innfæddur Hafnfirðingur, Gísli?
— Nei, ég kom hingað 1911, stráklingur með foreldrum mínum, en fram að þeim tíma voru þau vinnuhjú austur í sveit.
—En samt ert það þú sem reynir að varðveita þætti úr sögu Hafnarfjarðar. Er langt síðan þú byrjaðir á því?
— Það var á miðju sumri 1950 að ég byrjaði á þessu, en síðan hef ég notað allar frístundir í þessu augnamiði.
— Hvernig hefur þú unnið að þessu?
— Ég hef bæði safnað munnlegum heimildum gamals fólks í bænum og einnig farið í gegnum ógrynni af prentuðum heimildum. Ég hef fengið um hálft annað hundrað viðtala við gamla Hafnfirðinga, lýsingu á 50 gömlum húsum og um hundrað gamalla bæja, torfbæja og timburbæja. Ég hef einnig fengið nokkrar lýsingar á lóðum, annars var lóðaskipunin gamla fremur lítið breytt fram til þess að ég kom til Hafnarfjarðar. Nokkuð hef ég fengið af þjóðsögum, en það er ekki mjög mikið af þeim hérna.
moburdur— Hvernig þjóðsögur eru það?
— Huldufólkssögur helzt, en þó eru til nokkurs konar draugasögur, — og nú brosir Gísli kankvíslega um leið og hann heldur áfram: eins og t.d. þegar Ólöf gamla hálfhrakti hann Geira bróður útúr Undirhamarsbænum á gamlárskvöld 1923. Það mun vera ein yngsta fyrirburðasagan hér í bæ. Gamlir menn sögðu mér að þetta hefði ekkert verið og röktu flest slíkt til missýninga. Í þessum viðtölum við gamla Hafnfirðinga hef ég komizt töluvert inn í lífsbaráttu fólksins, t.d. eldiviðaröflun, — það var heimsstríð að hafa í eldinn.
— Já, segðu mér eitthvað frá því stríði.
— Flestir urðu að taka upp mó inni í Hraunsholtsmýri og bera móinn á sjálfum sér suður í Hafnarfjörð. Þar af eru nöfn “Hvíldarklettanna” við veginn í hrauninu komin. Nú er búið að brjóta þá alla niður í veginn nema einn. Þar settist fólk til að hvíla sig undir mópokunum. Svo var verið að hirða þöngla og allskonar rek í fjörunni. Þá fóru menn líka í hrísmó upp um allt og rifu hrís og mosa svo til landauðnar horfði. En það var líka til fólk sem ekki þurfti að standa í þessu stríði. Kaupmennirnir keyptu t.d. flestir um 40 hesta af mó árlega og létu flytja að sér. Þeir sem áttu skip fóru fyrir Álftanes á haustin og fluttu móinn sjóleiðis. Þeir urðu að velja sér sérstaklega gott veður því bátarnir voru svo hlaðnir. Þeir settu spýtur upp með borðstokkunum og þverslár þar á milli og þannig urðu bátarnir háfermdir. Stundum þurftu þeir því að hleypa upp á Álftanes á heimleiðinni til þess að forða mönnum og bátum frá því að sökkva.
— Var allur mór sóttur í þessa mýri?
— Nei, nokkuð fékkst af mó í Firðinum sjálfum og Hafnfirðingar fóru líka alla leið inn í Nauthólsvík til þess að taka upp mó þar. Á þrem stöðum hér í Hafnarfirði var aðallega hægt að fá mó. Það var í Hamarskotsmýrinni meðfram læknum, Sjávarmýrinni, þar sem skipasmíðastöðin Dröfn er nú, þar var mórinn 18 stungur. Þegar dráttarbrautin var byggð þar var tveggja mannhæða rof niður á móhellu. Og í mýrinni hjá Brandsbæ var einnig mór, þar var hann 6 stungur. – Í Sjávarmýrinni náði mórinn talsvert niður fyrir sjávarmál og upp í hallann hjá Kaldárstígnum gamla, þar man ég eftir mógröfum.
— Já, Kaldá, það varð nokkur saga af henni.
— Já, gamla Kaldá er löngu horfin, en þar var reist fyrsta gosdrykkjaverksmiðja á Íslandi. Jón Þórarinsson skólastjóri lét byggja hana og hún mun hafa starfað í 20 ár, en þegar hann seldi tók Milljónafélagið við.
— Milljónafélagið sem Thor Jensen tapaði minninu hjá?
— Nei, þetta var annað milljónafélag. Pétur J. Thorsteinsson o.fl. voru með það, en þetta milljónafélag fór einnig á hausinn. Jensen missti minnið svo gersamlega hjá hinu milljónafélaginu að hann gat með engu móti rámað í það að hann hefði átt heima í gamla Sívertsenhúsinu í Hafnarfirði í 1 eða 2 ár!
En svo við höldum áfram að tala um móinn þá fékkst sjávarmór vestur í Skerseyri. Ef fjörumölinni var mokað ofan af mátti ná bar í mó um fjöru. (Enn ein sönnun þess hve Suðurnesin hafa sigið). Og vestur í Víðistöðum var víst einhver móvera, en undir Víðistaðahvosinni er móhella — Víðistaðir eru eyja niðri í hrauninu sem það hefur runnið í kringum.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður.

— Það hefur verið erfitt stríð að halda eldinum lifandi.
— Já, t.d. þegar faðir Jóns Einarssonar verkstjóra fór í róðra kl. 2—3 á næturnar fór kona hans jafnsnemma til að sækja mósa í eldinn suður í Bruna, — það mun vera um 5 km gangur hvora leið. Þær fóru í flokkum kerlingarnar og báru sinn tunnupokann hver af mosa til baka.
Í hrísmó upp í Kaldársel var 7 km leið. Fólk fór það aðallega á næturnar, því eiginlega var það bannað — margbannað. Það var stuldur, en einhverju varð fólkið að brenna.
— Einar minn í Gestshúsum — nú er hann orðinn 90 ára — hefur sagt mér, heldur Gísli áfram, að þegar hann var 8 ára var hann látinn bera út mó úr kesti inni í Hraunholtsmýri á móti mömmu sinni. Þegar litlu fingurnir höfðu ekki lengur afl til að halda um börukjálkana var sett snæri um kjálkana, og aftur yfir háls drengsins, og þannig var hann látinn halda áfram unz síðasti hnausinn var kominn til þerris. Þá andvarpaði móðir hans (sem hafði eldiviðarleysi komandi vetrar í huga): Það vildi ég að kominn væri annar köstur!

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður.

— En þrátt fyrir þetta er hann nú orðinn níræður, blessaður karlinn. Þeir sem höfðu útgerð létu þurrka hvern hrygg og hvern haus til að hafa í eldinn. Jón Einarsson verkstjóri sagði mér að þegar hann og bræður hans voru strákar voru þeir látnir bera allt slíkt frá útgerð föður síns upp í Einarsgerði (var þar sem Herkastalinn var byggður við Austurgötuna) en þar höfðu verið hlaðnir garðar til að þurrka á. Þorskhausar voru hertir til matar en hausar annarra fiska og hryggir til eldsneytis.
— Og hvernig voru svo eldhúsin sem öllum þessum mó, hnausum, mosa og hrísi var brennt í?
— Hlóðirnar í Hjörtskoti standa enn, en Hjörtskot mun vera eini gamli bærinn sem enn stendur að mestu í svipuðu formi og fyrr, nema sett hefur verið á hann járn. Eldhúsið og hlóðirnar standa enn. Vestur á Skerseyri er enn til gömul eldhústóft. Hún er um 2-1/2×2 álnir að flatarmáli.
—Og bæirnir sjálfir lélegir?
— Já, gömlu bæirnir voru margir af vanefnum byggðir. T. d. var bærinn sem Kristinn Auðunsson (kunnur forfaðir margra ágætismanna) þannig að það kom varla svo dropi úr lofti að ekki hripaði inn í bæinn. Það blæs og hripar gegnum veggi sem hlaðnir eru úr hraungrýti (hraðstorknu gosgrjóti) og því var hafður svelgur í gólfinu í mörgum þeirra bæja sem voru með moldargólfi. Þótt þekjan væri úr tvöfaldri snyddu lak í gegnum hana því grasrót tekin í hrauni er allt annað en mýrartorf. Bæirnir voru viðaðir með skarsúð og þar utanyfir var rennisúð. Sumstaðar voru settir listar á samskeytin og tjargað yfir, en annarstaðár var snyddu hlaðið utaná til skjóls. Bæirnir munu flestir hafa enzt illa. Þórnýjár- og Pétursbær voru t.d. báðir byggðir um 1890 en báðir tæplega mannabústaðir um aldamót. Bæir sem gerðir voru af slíkum vanefnum munu yfirleitt ekki hafa enzt nema í 10 ár.
En hvernig var með vatn – annað en lekann?

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður.

— Það var líka stríð að hafa neyzluvatn á hraunbæjunum. Allt vatn var sótt í lækinn, hvar sem menn bjuggu í hrauninu. Þar sem Selvogsgatan er nú uppi á Hamrinum var lind, nefnd „Góðhola” og sóttu Hamarsbúar þangað vatn sitt. Dý var þar sem Kaldá var byggð og þangað sóttu sunnanbyggjar vatn. En allir sem áttu heima fyrir vestan Læk sóttu vatn í Lækinn. María Kristjansdóttir sagði mér frá því að þegar hún var 8 ára, lítið vaxin og pasturslítil, var hún send vestan frá Sveinshúsi (nú Merkurgata 3) suður í Læk með tvær vatnsfötur. Hún fyllti þær í Læknum og rogaðist með þær vestur eftir, en þegar þangað var komið var oft harla lítið eftir í fötunum, því föturnar voru stórar en telpan lítil og var því alla leiðina að reka þær í og hella niður og utaní sjálfa sig. Konur fóru einnig með þvottinn í Lækinn. Læknar sem hingað komu höfðu orð á bví að hér væri þvotturinn hvítari en í Reykjavík, sem mun hafa stafað af því að þegar þvegið var í Laugunum þurfti að bera þvottinn langa leið í bæinn, en hér var hann líka skolaður úr köldu rennandi vatni. — Já, neyzluvatnið var sótt í sama lækinn og þvegið var í.
— Þú segist hafa fengið lýsingu á 100 bæjum, — og þá líka hvar þeir stóðu?
— Já, mér hefur tekizt að fá töluvert af upplýsingum um bæina og byggðahverfin og töluvert um fólkið sem í þeim bjó.
Það segir betur frá því í síðari grein. -J. B.”

Heimild:
-Þjóðviljinn 10. apríl 1960, bls. 6-7 og 10.
stríð