Hvaleyrarlón

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1926 má lesa eftirfarandi um “Fundin bein á Hvaleyri þriggja manna”:
“Á Hvaleyri, sunnan við Hafnarfjörð, brýtur jafnan af túninu að norðanverðu, og eru þar nú orðnir háir bakkar við fjörðinn, neðst berg, allhátt, á því malarlag þykt og efst þykt moldarlag. Fyrir 30 árum, svo jeg veit til, varð vart mannabeina á einum stað þarna í bakkanum, ofarlega í moldarlaginu, og fundust þar nokkrir gnpir.
Hvaleyri - 223Bein sáust stundum í fjörunni undir berginu. — Fyrir þremur árum tók Magnús bóndi Benjamínsson, sem þar á heima í Hjörtskoti, höfuðkúpu af manni og nokkra hálsliði þar úr bakkanum og gröf í kistli í mónum þar hjá, fjær sjó. Haustið 1924 varð hann var fleiri beina þar yzt í bakkanum og sumra í fjörunni. Gróf hann þá dálítið til og tók enn úr bakkanum 2 höfuðkúpur og mörg bein önnur, úr tveim mönnum. Var mjer nú gert við vart og fór jeg að skoða beinin.
Höfuðkúpurnar voru heillegar og mátti sjá af tönnunum, að önnur væri af öldruðum manni, en hin af miðaldra. Eftir skýrslu Magnúsar um upptöku beinanna og því, sem sjá mátti af þeim, vantaði enn mikið af beinum yngra mannsins; hafði hann legið litlu innar í bakkanum, en raunar virtust allar beinagrindurnar hafa legið þjett saman. Að sögn Magnúsar lágu bein gamla mannsins þannig, að sjá mátti að hann hafði ekki orðið lagður til, heldur jarðsettur kreptur. Svo var nú áliðið, að jörð var frosin og ákvað jeg að fresta frekari rannsókn til næsta sumars. Fór jeg svo 13. ág. 1925 og athugaði fundarstaðinn.
Við rannsóknina komu í ljós fætur yngra mannsins, báðir heillegir, og hægri handleggur, sem hafði verið sveigður inn yfir miðju. Efri hluta beinagrindarinnar hafði Magnús tekið upp að öðru leyti. Lærleggir voru 50 cm. að lengd. Fæturnir voru alveg beinir; hafði maðurinn verið lagður til og rjett grafinn; vissu fæturnir lítið eitt (15°) sunnar en í háaustur. Hjá beinum hans varð ekki vart fleiri beina, en ekki var grafið vítt út frá þeim. Beinin voru um 50 cm. (19 þuml.) Frá núverandi grassverði og hafa menn þessir ekki verið grafnir dýpra. Ekki varð vart við leifar af líkkistum, en hornhnapp af fötum hafði Magnús fundið. Sennilega hafa líkin verið grafin í fötunum. Magnús tók nú upp aftur höfuðkúpu þá, er hann hafði grafið í móann fyrir 2 árum. Hún var af ungum manni; sýndu það tennurnar í kjálkunum, sem voru heilir og með allsendis óslitnum tönnum; efri tanngarð vantaði.
hvaleyri - 224Bein þessi munu vera frá síðari öldum og þótti mjer ekki ástæða til að varðveita þau í Þjóðminjasafninu. Þau eru sennilega kristinna manna leifar og voru flutt í kirkjugarð Hafnarfjarðar. Er leitt er getum að því, hversu stendur á þessum grefti hjer utan kirkjugarðs á Hvaleyri, þar sem þó var kirkjugarður, notaður fram á 17. öld, og kirkja eða bænhús fram yfir 1760, má minna á frásagnir sjera Jóns Egilssonar í Byskupa-annálum hans, þar sem hann skýrir frá því, að á dögum Magnúsar Skálholtsbyskups Eyjólfssonar (1477—90), hafi ábótinn í Viðey ráðist á Englendinga, sem lágu hjer hjá Fornubúðum, og unnið sigur á þeim, en mist þó son sinn í bardaganum.
hvaleyri-221Enn segir sjera Jón, að á dögum Stefáns byskups Jónssonar, árið 1518 eða þar um, hafi Englendingar og Hamborgarar í Hafnarfirði barist þar. »Unnu þýzkir og rýmdu hinum í burtu og fluttu sig fram á eyri og hafa legið þar síðan«, segir sjera Jón. Fornubúðir munu hafa verið þar sem enn sjer leifar 2 stórra búða í túnfætinum fyrir austan Hjörtskot, en búð Hamborgara frammi á eyrinni mun hafa verið þar, sem nú heitir Skiphóll á Hvaleyrargranda. Menn þá er fjellu í fyrri bardaganum af liði ábóta, hefur hann óefað fært til graftar og Hamborgarar hafa einnig að sjálfsögðu grafið landa sína á heiðarlegan hátt. Um 30 árum síðar er þess getið, að þeir ættu sjer kirkju þarna. Aftur á móti munu bæði Íslendingar og Hamborgarar hafa álitið hina ensku óvini sína, er þeir drápu, ófriðhelga menn, sem ekki sæmdi að veita gröft í vígðum reit. Þó þykir mjer líkast til, að bein þeirra þriggja er fundist hafa nú í Hvaleyrarbakka, sjeu fremur úr sjódauðum mönnum, er fundist hafa reknir hjer á Hvaleyri, en að þau sjeu bein nokkurra þeirra enskra manna, sem drepnir hafa verið hjer í öðrum hvorum þessara bardaga, því að sem mörgum mun kunnugt var sá siður algengur fyrrum, að jarða eða dysja ókend lík, er rak af sjó, þar nærri er þau fundust. Þau voru ekki færð til kirkjugarðs, heldur grafin í óvígðri mold, því að óvíst þótti, nema þau væru af ókristnum mönnum eða óbótamönnum. Hjer gengu fyrrum ræningjar oft á land, helzt Englendingar, sem stálu bæði fólki og fje, og eftir Tyrkjaránið var lengi uggur og ótti við útlendinga, sem voru á sveimi hjer við land. – Matthías Þórðarson”.
Sjá meira HÉR og HÉR.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélegas, 39. árg. 1925-1926, bl.s 57-58.

Hvaleyri

Hvaleyri – örnefni.