Kaldársel

Eftirfarandi frásögn um upphaf Kaldársel (sumarbúðanna) birtist í Bjarma árið 1967:
kaldarsel-990“Að aflokinni messu á Bessastöðum á annan hvítasunnudag árið 1921, var haldinn stuttur K.F.U.M.-fundur þar í kirkjunni. Þá var stofnaður sjóður, sem hafa skyldi þann tilgang að koma upp sumarbúðum fyrir K.F.U.M. Það voru tveir félagar úr K.F.U.M. í Hafnarfirði, sem lögðu fram hundrað krónur. Seinna mynduðu nokkrir félagsmenn í Hafnarfirði og Reykjavík samtök um þetta mál. Var ákveðið að koma saman fyrsta föstudag hvers mánaðar, annan hvern mánuð í Reykjavík en hinn í Hafnarfirði. Fundir þessir voru bænafundir, þar sem beðið var fyrir málefninu, og að því loknu var lögð fram fórn til sjóðsins. Allt fór þetta fram í mestu kyrrþey. Vorið 1925 var sjóðurinn orðinn nær fjögur þúsund krónur. Var þá farið að hugsa til framkvæmda og lét bæjarstjórn Hafnarfjarðar félaginu í té eignarhald á túninu umhverfis eyðibýlið Kaldársel.

Kaldársel 1930

Kaldársel 1930. Seltóftirnar hægra megin.

Þetta sama vor var hafizt handa um að byggja skálann. Minnast ýmsir þess enn í dag, er við hin erfiðustu skilyrði varð að bera efnivið allan yfir hraunhálsinn þaðan, sem bifreiðir komust lengst, og upp að Kaldárseli. Um miðjan júní var unnt að vígja skálann. Var þá í honum svefnsalur með 24 rúmum, auk þess lítið herbergi og eldhús. Síðar var hann stækkaður um helming, með því að byggð var fyrir vestan skálann álma til norðurs. Nú fyrir fjórum árum var enn hafizt handa um stækkun skálans, og eru vonir til, að henni verði nokkurn veginn lokið í sumar.
Skálinn var fyrst sameign félaganna í Reykjavík og Hafnarfirði, en eftir nokkur ár varð hann einkaeign kaldarsel-991Hafnarfjarðarfélagsins.
Fyrst framan af var skálinn mikið notaður í sambandi við útilegur um helgar. Snemma var farið að nota hann til dvalar flokka, og síðari árin hefur hann verið í látlausri notkun þrjá sumarmánuði. Skiptast K.F.U.M. og K.F.U.K. í Hafnarfirði á að nota skálann, og hafa drengjaflokkar heldur lengri tíma til umráða.
Aðsókn hefur undanfarin ár verið ákaflega góð að sumarstarfinu í Kaldárseli. Benedikt Arnkelsson, guðfræðingur, hefur veitt drengjastarf inu forstöðu mörg undanfarin sumur. Margar konur og stúlkur hafa skipzt á um að stjórna starfinu meðal stúlknanna.
Kaldárselsskálinn stendur í mikilli hraunbreiðu skammt frá Helgafelli. Þar er ákaflega mikil náttúrufegurð. Sérstaklega er kvöldfegurðin rómuð. Einkanlega þó síðari hluta sumars. Aðstaða er þarna mjög góð til útiveru og fjallgöngu. Margs konar náttúrufyrirbrigði er þarna að skoða, eins og yfirleitt er í brunalandi.”

Heimildir:
-Bjarmi, 61. árg. 1967, bls. 32.

Kaldársel

Kaldársel.