Straumur/Óttarrsstaðir

“Fjárborgir eru víða að finna á Reykjanesskaganum og víðar og vitna um gott verklag og hyggjuvit þeirra sem hlóðu þær.
Flestar borgirnar eru kenndar við þá bæi sem þær tilheyrðu en ein fjárborg er Ottarsstadir-536kennd við konu og nefnd Kristrúnarfjárborg. Þessi fjárborg stendur á nokkuð sléttum hraunhrygg skammt vestan við Smalaskála í Hraunum sunnan við Straumsvík. Fjárborgin er allt eins nefnd Óttarstaðafjárborg, en Kristrúnarborg er það nafn sem staðkunnugir notast jafnan við. Konan sem fjárborgin er nefnd eftir hét Kristrún og var Sveinsdóttir en hún kom upphaflega sem vinnukona að Óttarstöðum frá Miðfelli í Þingvallasveit og varð húsmóðir á bænum. Gísli Sigurðsson lögregluþjónn í Hafnarfirði og örnefnasafnari sagði frá því í örnefnaskrá sinni að Kristrún hefði hlaðið borgina ásamt vinnumanni sínum.

Ottarsstadir-537

Það er rétt að huga aðeins nánar að því hver þessi kona var og hvernig stóð á því að hún settist að á Óttarstöðum. En fyrst þarf að greina frá því hvernig málum á þessum slóðum var háttað áður en Kristrún kom til sögunnar.
Þannig var að Jón Hjörtsson var leiguliði á Óttarstöðum árið 1835, þá orðinn 59 ára gamall. Hann stundaði talsverða útgerð enda fiskveiðar góðar á þessum slóðum. Eiginkona Jóns var Guðrún Jónsdóttir sem var 68 ára og því nærri áratug eldri en eiginmaðurinn eins og algengt var á þessum tíma. Rannveig dóttir þeirra hjóna var þrítug og bjó hjá þeim ásamt syni sínum Steindóri Sveinssyni sem var tíu ára gamall. Vinnumaður á bænum var Guðlaugur Erlendsson 39 ára gamall og Sigvaldi Árnason 43 ára tómthúsmaður bjó einnig á Óttarstöðum ásamt Katrínu Þórðardóttur 53 ára eiginkonu sinni.
Jón Hjörtsson keypti hálfa Óttarstaðajörðina af konungssjóði 28. ágúst 1839 en hinn hlutann ásamt Óttarstaðakoti keypti Guðmundur Guðmundsson í Straumsseli. Guðmundur var umsvifamikill á þessum tíma og eignaðist smám saman jarðirnar Stóra Lambhaga, Straum og Þorbjarnarstaði. Jón og Guðrún stofnuðu til nýrrar hjáleigu í landi sínum fyrir 1850 sem fékk nafnið Kolbeinskot.  Nafnið tengdist ábúandanum Kolbeini Jónssyni, sem var 33 ára árið 1850 eins og eiginkonan Halldóra Hildibrandsdóttir.

Ottarsstadir-538

Þau áttu börnin Oddbjörgu 6 ára, Jón 2 ára og Hildibrand sem var eins árs. Fyrstu árin reyndu þau venjubundinn með búskap en túnin sem Kolbeinskot hafði til umráða voru ekki mikil, jafnvel þó þau gætu slegið Kotabótina og beitt skepnum sínum á fjöru á vetrum og úthagann á sumrin. Veturinn 1859-60 reri Sighvatur Jónsson sem kallaður var Borgfirðingur á skipi Kolbeins og hafði fjölskyldan viðurværi sitt einvörðungu af fiskveiðum húsbóndans. Um þessar mundir bættist dóttirin Guðbjörg í barnahópinn og vegnaði fjölskyldunni ágætlega enda nóg að bíta og brenna. Árið 1890 þegar Kolbeinn var á 79. aldursári en Halldóra nýlega orðin 80 ára bjuggu þau í Óttarstaðakoti ásamt Jóni Bergsteinssyni 14 ára dóttursyni sínum.
Ottarsstadir-539Árið 1855 lést Guðrún Jónsdóttir húsmóðir á Óttarstöðum 88 ára gömul en Jón Hjörtsson lifði konu sína, orðinn 79 ára gamall. Hann bjó á Óttarstöðum í sambýli við Rannveigu dóttur sína og Steindór son hennar sem var 31 árs og einhleypur. Hann var í raun réttri húsráðandi og bóndi á bænum á þessum tíma. Steindór festi ekki ráð sitt fyrr en fimm árum seinna en þá hafði vinnukonan Kristrún Sveinsdóttir verið á bænum um skeið. Kristrún fæddist 24. apríl 1832 að Miðfelli í Þingvallasveit. Hún var dóttir Sveins bónda Guðmundssonar og konu hans Þórunnar Eyleifsdóttur sem bjuggu að Miðfelli. Kristrún hafði orð á sér fyrir að hafa verið tápmikil kona og eftirtektarverð. Kristrún kom að Óttarstöðum ásamt Bergsteini bróður sínum sem var einu ári eldri en hún og var vinnumaður á bænum. Systkinin voru annálaðir dugnaðarforkar. Nokkru áður en þau komu að Óttarstöðum hafði allt sauðfé verið skorið niður á suðvesturhorni landsins vegna fjárkláða. Bændur þurftu að koma sér upp nýjum fjárstofni og fengu sauðfé frá Norðurlandi sem var ekki hagvant í hraunlandslagi.

Ottarsstadir-540

Venja þurfti féð við nýju heimkynnin og þessvegna þótti skynsamlegt að breyta aðeins um búskaparhætti og hafa féð nær bæjum en áður hafði tíðkast. Um þessar mundir hættu margir bændur að færa frá í sama mæli og áður og selfarir lögðust af að miklu leyti og smám saman fóru selin í eyði.
Þegar fjárskiptin stóðu fyrir dyrum hófu menn víðsvegar á Suðurnesjum að hlaða upp hringlaga fjárborgir og var ein slík gerð í landi Óttarstaða. Á þessum tíma hófu menn víðsvegar á Suðurnesjum að hlaða upp hringlaga fjárborgir og var ein slík gerð í landi Óttarstaða. Borginni var fundinn staður skammt vestur af Smalaskálahæð á sléttum hraunhól. Kristrún stjórnaði hleðslu fjárborgarinnar og tók virkan þátt í að koma henni upp eða vann þetta að mestu ein ásamt vinnumanni sínum samkvæmt því sem Gísli Sigurðsson komst næst er hann safnaði upplýsingum um örnefni í landi Óttarstaða. Allavega fór það svo að fjárborgin var ætíð eftir það við hana nefnd og kölluð Kristrúnarborg. Fjárborgin hefur jafnframt gengið undir heitinu Óttarstaðafjárborg. Kristrún vann ekki ein að þessu því Bergsteinn bróðir hennar lagði drjúga hönd að verkinu, en þau voru vön að hlaða garða úr hraungrjóti sem nóg er af í Þingvallasveit.
Hvort það var þessi atorka og verkkunnátta sem varð til þess að Steindór bóndi á Óttarstöðum heillaðist Ottarsstadir-541af Kristrúnu er ekki gott að fullyrða, en allavega fór það svo að þau gengu í hjónaband 9. október 1860. Hann var 36 ára en hún var 28 ára gömul þegar stofnað var til hjónabandsins.
Steindór var dugmikill bóndi og formaður sem aflaði vel og var ágætlega efnum búinn. Hjónabandið virðist hafa verið farsælt, en Steindórs naut ekki lengi við því hann fékk holdsveiki og lést af völdum veikinnar árið 1870. Sveinn sonur Steindórs og Kristrúnar var á barnsaldri þegar faðir hans andaðist og átti  Kristrún allt eins von á að þurfa að bregða búi. Bergsteinn bróðir hennar byggði upp Eyðikotið árið 1864 og nefndi það Óttarstaðagerði. Hann hafði nokkur áður gengið að eiga Guðrúnu Hannesdóttur og árið 1870 áttu þau börnin Svein sem var 9 ára, Þórönnu sem var 6 ára, Guðmund sem var 3 ára og Steinunni sem var 1 árs. Hjá þeim var ennfremur Þorgerður Jónsdóttir móður Guðrúnar og amma barnanna.
Ottarsstadir-542Kristrún sýndi einstakt þrek í því mótlæti sem á hana var lagt og tók á sig heimilisbyrðina alla óskipta og rekstur búskaparins út á við. Hún naut þess að Bergsteinn bróðir hennar bjó í Óttarstaðakoti og settist sjálf að í litlu timburhúsi sem Vernharður Ófeigsson rokkasmiður byggði á Óttarstöðum árið 1842 en hann andaðist tveimur árum seinna. Þá keypti Jón Hjörtsson húsið á 16 ríkisdali og frá þeirri stundu var það þurrabúð og leigt út sem slíkt um árabil. Kristrún samdi við Ólaf Magnússon sem fæddist í Eyðikoti 1844 um að taka við búinu um hríð. Hann var sonur Magnúsar Jónssonar og Guðríðar Gunnlaugsdóttur og ólst upp í Hraunum. Eiginkona hans var Guðný systir Guðjóns Jónssonar á Þorbjarnarstöðum sem var þar leiguliði Árna Hildibrandssonar í Ási við Hafnarfjörð. Ólafur og Guðný höfðu ekki búið lengi á Óttarstöðum þegar þau eignuðust soninn Magnús, sem fæddist 9. september 1872. Ólafur varð fyrir slysaskoti úr eigin byssu síðla árs 1875 sem dró hann til dauða á fáum árum. Fluttu þau að Lónakoti þar sem Magnús lést 1878 og voru öll efni þeirra nánast gengin til þurrðar.
Guðmundur Halldórsson sem átti bát með Guðjóni á Þorbjarnarstöðum kvæntist Guðnýju systur Guðjóns eftir að Ólafur eiginmaður hennar andaðist.

lonakot-441

Bjuggu þau fyrst í Lónakoti, síðan í Eyðikoti áður en þau fluttu að Vesturkoti á Hvaleyri árið 1883 og bjuggu þar til ársins 1904. Þau eignuðust tvo syni en Magnús sonur Guðnýjar og Ólafs fór 15 ára gamall í vinnumennsku til Krýsuvíkur til Árna Gíslasonar og tók svo miklu ástfóstri við staðinn að hann gat ekki farið þaðan. Hann var síðasti ábúandinn í Krýsuvík og bjó undir það síðasta í Krýsuvíkurkirkju. Gott orð fór af Guðmundi fósturföður Magnúsar. Hann var sagður dverghagur smiður á tré, járn og kopar, lagfærði klukkur og þótti aukinheldur góður vefari og stundaði vefnað sinn á vetrum
Kristrún bjó í þurrabúðinni ásamt Sveini syni sínum sem var aðeins 8 ára gamall en hann átti seinna eftir að verða dugandi bóndi og formaður. Kristrún var kjarkmikil og áræðin og tók formannsæti bónda síns á fiskifari heimilisins. Sótti hún sjóinn ásamt vinnumönnum sínum með atorku og heppni og samkvæmt manntalinu 1870 var hún sögð lifa á fiskveiðum, sem var ekki algengt starfsheiti kvenna á þessum árum. Var hún órög við að sækja á djúpmið og stjórnaði hásetum sínum af myndugleik.
Jón Jónsson 29 ára sjómaður var hjá henni Ottarsstadir-543ásamt Björgu Magnúsdóttur 23 ára eiginkonu sinni og vinnumanninum Bergsteini Lárussyni sem var einnig í skipsrúmi hjá Kristrúnu. Kristrún sá jafnframt um að versla til heimilisins og annaðist aðra aðdrætti sem var óvenjulegt á þessum tíma.
Kristrún giftist aftur 16. nóvember 1871 Kristjáni Jónssyni sem var 12 árum yngri en hún. Kristján fæddist 12. september 1844 og var sonur Jóns Kristjánssonar bónda í Skógarkoti í Þingvallasveit og miðkonu hans Kristínar Eyvindsdóttur frá Syðri Brú í Grímsnesi, Hjörtssonar. Bróðir Kristján var Pétur Jónsson blikksmiður í Reykjavík. Kristján var dugandi efnismaður og tóku þau hjónin við búskap á Óttarstöðum eftir að Ólafur særðist af voðaskotinu 1875. Þeim farnaðist vel og höfðu ágætar tekjur af fiskveiðum til að byrja með. Til marks um hversu vel þeim farnaðist má nefna að Kristján var sagður hafa 650 ríkisdali í tekjur 1873-74, sem segja má að Kristrún hafi aflað að mestu með formennsku sinni. Þau bjuggu saman á Óttarstöðum til ársins 1883 er þau fluttu að Hliðsnesi á Álftanesi.

Ottarsstadir-544

Þar bjuggu þau í 20 ár og eignuðust þrjú börn: Kristinn stýrimann og seglmakara sem sem bjó í Hafnarfirði og var kvæntur Rannveigu Jónsdóttur frá Setbergi; Þórunni húsfreyju sem giftist Ísaki Bjarnasyni bónda á Bakka í Garðahverfi og Jónu húsfreyju sem giftist Steingrími Jónssyni húseiganda í Hafnarfirði. Kristrún lést 13. desember 1903 og fékk þau eftirmæli að hún hefði verið gædd mikilli atgervi til sálar og líkama, verið kona tígurleg yfirlitum og mjög einarðleg, hreinlunduð, trygg og staðföst.  Hún var ráðdeildarsöm, ástrík og umhyggjusöm móðir og eiginkona. Síðustu æviárin var heilsu hennar farið að hnigna og fékk hún slag að kvöldi 4. desember og lá síðan í dái þar til hún lést. Var hún jarðsett að Görðum 22. desember við hlið fyrri eiginmanns síns og nokkurra barnabarna.
Kristján flutti stuttu eftir andlát Kristrúnar frá Hliðsnesi til Hafnarfjarðar og hóf verslunarrekstur þar. Heppnaðist það miðlungi vel og gengu efni hans til þurrðar á skömmum tíma.

gardar-221

Seldi hann verslun sína sumarið 1906 og bakaði féþurðurinn honum þungum áhyggjum. Var hann ekki með sjálfu sér eftir það og gekk í sjóinn 2. september 1906 milli Hafnarfjarðar og Garðahverfis og réð sér bana. Var hann tæpra 62 ára þegar þessi atburður átti sér stað. Svo aðgrunnt var á þessum slóðum að líkið var ekki alveg á kafi er það fannst. Var þessi atburður afar sorglegur og orti Friðrik Friðriksson eftirfarandi: Ljúfur með líkn og dáð; lengi var sveitarstoð, grandvar með góðri lund, gætinn í orði’ og hug.
Sveinn sonur Kristrúnar og Steindórs kvæntist Þórunni Guðmundsdóttur frá Nýjabæ í Garðahreppi. Þau eignuðust dótturina Bertu Ágústu 31. ágúst 1896 er þau bjuggu í Hafnarfirði. Þegar dóttirin var tveggja ára fluttu þau að Hvassahrauni á Vatnsleysuströnd og bjuggu þar í tíu ár, þar til þau fluttu að Stapakoti í Njarðvík. Árið 1917 keypti Sveinn Lækjarhvamm í Laugarnesi en hann andaðist stuttu eftir það. Þórunn bjó áfram að Lækjarhvammi ásamt Bertu dóttur sinni til 1925. Berta stundaði hannyrðanám í Askov í Danmörku og Kaupmannahöfn 1919 til 1921. Hún stundaði kennslu heima í Lækjarhvammi og bjó þar myndarbúi til ársins 1965 ásamt eiginmanni sínum Einari Ólafssyni, en þá var landið tekið undir byggingar.
oskjuhlid-221Á meðal þeirra sem réðust sem vinnumenn að Óttarstöðum var Brynjólfur Magnússon úr Holtum í Rangárþingi sem varð seinna kennari. Hann kom til Kristrúnar og Kristjáns á Óttarstöðum árið 1877 þegar hann var 16 ára. Taldi Brynjólfur sig eiga þeim og börnum þeirra mikið að þakka. Tókust góð kynni með honum og þeim ekki síst Þórunni sem var ekki nema fjögurra ára gömul þegar hann kom á heimilið. Kristrún gerði sér grein fyrir gáfum Brynjólfs og studdi hann til náms í Flensborgarskóla. Þaðan útskrifaðist hann 1891 og varð eftir það umferðakennari, eins og það nefndist, á heimaslóðunum fyrir austan sem og í Gullbringusýslu. Var hann með fyrstu mönnum eystra til að læra að leika á orgel. Síðustu sex ár ævi sinnar var Brynjólfur búsettur í Fífuhvammi í Seltjarnarneshreppi sem var heimili Þórunnar Kristjánsdóttur frá Óttarstöðum sem var honum eins og litla systir. Brynjólfur lést 74 ára gamall 8. október 1935 þegar bifreið ók á hann í suðurhlíðum Öskjuhlíðar er hann var á leiðinni til Reykjavíkur til að sinna erindi fyrir Þórunni í Fífuhvammi.
Þessi frásögn gæti verið mun lengri en ástæðulaust að tíunda fleira að sinni. Kristrún Sveinsdóttir var merkileg kona og það er full ástæða til að halda nafni hennar og ættmenna hennar á lofti. Fjárborgin ein og sér sýnir svo ekki verður um villst að hún kunni vel til verka og lét ekki sitt eftir liggja þegar til framfara horfi í einhverjum málum.”

Heimild:
-Jónatan Garðarsson tók saman í júní 2012

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar.