Reykjanesvirkjun

“Efsta gjóskulagið víðast hvar á Reykjanesskaganum er Kötlulag sem talið er vera frá lokum 15. aldar (Guðrún Larsen 1978). Þetta lag hefur gjarnan verið nefnt K-1500 og er þykkast gjóskulaga á svæðinu frá því eftir landnám.
Gjoskulog-21Næstefsta lagið er orðið til við gos í sjó skammt undan Reykjanesi á þriðja áratug 13. aldar, sennilega árið 1226 (Magnús Á. Sigurgeirsson 1992a, 1992b). Þetta lag samsvarar því gjóskulagi sem almennt hefur verið nefnt miðaldalagið (ML).
Næst kemur auðþekkjanlegt tvílitt gjóskulag, með ljósan neðri hluta og dökkan efri hluta, svonefnt Landnámslag (LNL eða Vö~900). Efnagreiningar sýna að neðri hlutinn er úr súrri gjósku en sá efri úr basískri. Landnámslagið varð til í miklu gjóskugosi á Veiðivatna- og Torfajökulssvæðinu um 900 e.Kr. (Guðrún Larsen 1984). Nærri miðju sniðsins er ljóst gjóskulag sem gjarnan hefur verið tengt Heklulaginu H3. Athuganir Bryndísar G. Róbertsdóttur (1992a) á gjóskulögum á Suðurlandsundirlendinu benda til að hér sé um Heklulagið HA að ræða, sem hún telur vera 2400-2600 ára gamalt.
Neðan Heklulagsins koma svo þrjú svört Kötlulög með stuttu millibili. Efri lögin tvö eru um hálfur sentímetri að þykkt en það neðsta 5-6 sentímetrar og jafnframt þykkast gjóskulaga. Í frjórannsóknum sínum hefur Þorleifur Einarsson (1956, 1961) talið þetta þykka lag vera 4000-5000 ára gamalt. Bryndís G. Róbertsdóttir (1992b) hefur leitt rök að því að hér sé um 3200-3400 ára gamalt Kötlulag að ræða. Þá kemur grágrænt þunnt gjóskulag sem samkvæmt efnagreiningum er frá Heklu komið. Ekki er vitað með vissu um hvaða Heklulag hér er að ræða. Ljós gjóskudreif er í mónum nokkru neðan Heklulagsins, en þar sem fullnægjandi efnagreiningar fengust ekki er uppruni óviss. Þorleifur Einarsson (1961, 1962) hefur merkt þessa dreif með „S” í sniðum á Reykjavíkursvæðinu. Neðst, skammt ofan ísaldarleirsins, koma síðan svörtu gjóskulögin tvö sem hér verða til umfjöllunar. Milli þeirra er tæplega eins sentímetra þykkur mór og er efra lagið um þriggja sentímetra þykkt en það neðra tæpur sentímetri.”

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 62. árg. 1992, 3.-4.tbl. bl.s 130-131.
Önglabrjótsnef