Þorlákshöfn

 “Þorlákshöfn er kennd við Þorlák biskup helga.  Sögn er, að Þorlákur biskup hafi stigið þar á land, er hann kom frá biskupsvígslu 1178, af því sé nafnið komið.  Hálfdán Jónsson lögréttumaður á Reykjum í Ölfusi ritaði þetta um Þorlákshöfn:
Thorlakshofn-215Þorlákshöfn hefir sitt nafn af Þorláki biskupi Þórhallssyni hinum helga í Skálholti, er þar meinast fyrst hafi á land gengið eftir sína biskupslegu vígslu.  Þar heitir og enn nú að framanverðu við bæinn Þorláksvör, Þorlákssker og Þorlákshóll, þar túnið er hæst.  Í þessari veiðistöðu ganga árlega um vertíðartímann frá kyndilmessu og í 14 vikur þar eftir yfir fjörutíu skip stór og smá; mörg þeirra heyra til biskupsstólnum í Skálholti.
Önnur sögn er, að eigandi jarðarinnar hafi í sjávarháska heitið á Þorlák sér til liðsinnis og svo gefið Skálholti jörðina. Talið er að áður hafi hún heitið Elliðahöfn.  Það er staðfest með dómi 1774.  En samkvæmt dómnum mun höfnin hafa heitið  Elliðahöfn í fyrstu, eða eftir að hún var mönnum byggð, og máski fram yfir lát Þorláks biskups helga 1193. – Næstum sex öldum síðar er enn fólk í Ölfusi og Flóa, sem kannast viðhið forna heiti Elliðahöfn.
Thorlakshofn-211Þorlákshöfn var að fornu fari ein af hinum mestu hlunnindajörðun Árnessýslu. Í jarðabók Árna Magnússonar Páls Vídalíns 1708 segir m.a.: “Rekavon er hér góð af viðum og hvölum á Þorlákshafnarskeiði”. Þá var þar sölvatekja mikil, er sveitamenn fyrr á tímum sóttu þangað, stundum um langa leið. Gamlar sagnir herma, að á hallæristímum, td. Eftir móðuharðindin, hafi það gerst, að Skagfirðingar hafi komið suður yfir fjöll til sölvakaupa í Þorlákshöfn. Sölin í Þorlákshöfn voru talin mikið góð, jafnvel betri en annars staðar austanfjalls. Mikið að Þorlákshafnarsölvunum var flutt í sjálft staðarbúið í Skálholti. Þar voru þau sem annars staðar notuð til matar og manneldis.
Thorlakshofn-212Trjárekinn var löngum mikill í Þorlákshöfn. Svo lengi, sem biskupsstóllinn átti jörðina, má sjá það af heimildum frá 16., 17. og 18. öld, hve viðarrekinn var oft feikimikill og löngum fluttur upp að Skálholti. Þar var hann notaður til húsagerðar, viðhalds húsa og búsmuna og annarra smíða. Einnig var rekaviðurinn oft seldur sveitamönnum, þegar biskupsstóllinn áleit sig aflögufæran þeim nytjagögnum.
Það voru lítil skilyrði til búsetu fyrir sjómennina í Þorlákshöfn. Túnið sjálft og suður af því, svo nefnt Þorlákshafnarnes var eina gróna landið um langan aldur og höfðu heimabændur það fyrir búpening sinn. Utan þess svæðis og ofan við það var næsta nágrennið mestmegnis foksandur með melgrastoppum, klappir og hraun.
Thorlakshofn-213Það voru því aðrar ástæður en landbúskapur, sem lágu til þess, að sókn sjómanna til Þorlákshafnar var meiri en annarra verstöða. Ástæðurnar voru einkum tvær, önnur var sú að lendingarnar voru taldar þar betri en alls staðar annars staðar á nærliggjandi svæðum.  Var því oftar mögulegt að komast til róðra á næstu fiskimið.  Þar af leiðandi urðu þar að jafnaði betri hluti en í öðrum verstöðvum austan fjalls, enda segir í Jarðabók Árna og Páls 1708, að þar sé “verstaða merkilega góð”. Hin ástæðan var sú, að þar var langöruggasta landtakan og hættuminnst mönnum, skipum og afla.  Stundum kom það fyrir að með öllu var ólendandi við Loftstaðasand, Stokkseyri og Eyrarbakka, svo að menn urðu frá að hverfa og var þá oft eina lífsvonin að leita til Þorlákshafnar. Margar sögur eru til af því að opnu skipin austan Ölfusár leituðu til Þorlákshafnar, þegar ólendandi var í heimaverstöðvunum og náðu á slysalaust landi í Þorlákshöfn. Var hún í slíkum tilfellum stundum nefnd þrautalending eða “lífhöfn” hinum sjóhröktu mönnum.”

Heimild:
-Saga Þorlákshafnar.
-olfus.is
-ismennt.is/not/siggud/heimabaer/ljod.htm

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn.