Móakot

Eftirfarandi vital við Þórarinn Einarsson á Höfða á Vatnsleysuströnd birtist í Vísi árið 1967 undir fyrirsögninni “Stundum þarf leiðin ekki að vera svo löng svo maður verði margs vísari”:
Thorarinn-21“Það skeður margt á langri leið er oft orðtæki eldra fólksins. En stundum þarf leiðin ekki að vera svo mjög löng, til þess að menn verði margs vísari bæði um fortíð og samtíð.
Hér verður rætt við hjónin Þórarinn Einarsson frá Höfða á Vatnsleysuströnd og kona hans Guðrún Þorvaldsdóttir frá Álftakoti á Mýrum. Þegar við höfum tekið tal saman, kemur í ljós að ég er ekki með öllu ókunnur ætt þeirra og uppruna. Því Þórarinn — og þeir góðvinir mínir Elías Guðmundsson, sem lengi hefur haft hönd í bagga með útbreiðslu Þjóðviljans og Einar Guðmundsson, sem svo oft hefur verið viðmælandi minn á Blönduósi norður eru bræðrasynir — og standa því rætur þeirra á Suðurnesjum, og víst er að þótt grunn virðist hin frjóa gróðurmold á Vatnsleysuströndinni þá hefur Þórarni tekizt að festa þar vel rót, því hann hefur nú átt heima í 62 ár á Höfða og aldrei fært sig um set. Nokkur skil kann ég einnig á konu hans, því hún er systir þeirra bræðra Friðriks Þorvaldssonar framkvæmdastjóra í Borgarnesi og Sigurðar Þorvaldssonar hreppstjóra á Sleitustöðum í Skagafirði, svo þess má vænta að engir kalkvistir muni út af þeim spretta.

Hofdi-1

Og nú fer ég að spyrja Þórarin um líf liðinna daga — áður en Miðnesheiði var hálf erlend borg og farið var að leggja undirstöður að bræðsluofnum við Straumsvík eða stofna þar til verkfalla.
— Já, þá var búið á hverjum bæ frá Vogastapa að Hvassahrauni og útgerð úr hverri vör.
— Fyrst voru eingöngu áraskip og svo litlir vélbátar. Á Ströndinni er víðast sæmileg lending og mjög fiskisælt þangað til togararnir komu. Sjálfur hef ég bæði verið háseti og formaður á áraskipi og vélbát. Það var oft gaman þegar vel veiddist, og gæftir gáfust. Þá féllu stundum margir svitadropar, og ekki var, maður tímaglöggur þegar sá guli vildi bíta.
Hofdi-2— Þótt Vatnsleysu-ströndin sé fremur hrjóstrug, þá höfðu flest allir einhvern búpening, kýr og kindur. — Nú er þetta breytt orðið, Ströndin að mestu komin í eyði og enginn fer á sjó úr hennar vör. Undanfarin ár hefur verið stunduð hrognkelsaveiði, en svo kom verðfallið í vor og munu einir tveir bátar eitthvað sinna því. Úr Vogunum eru nú gerðir út tveir bátar, annar 50 smálestir, hinn 100.
— Ójá ég man nú tvenna tímana og það var stundum hart í ári. Hann var ekki alltaf tiltækur sá guli, einar þrjár vertíðir man ég að það fengust einir 16 fiskar til hlutar, en svo man ég líka að það komu 1000 fiskar í hlut yfir úthaldið. Stærstu býlin á Ströndinni áður fyrr voru Kálfatjarnarhverfi — Auðnir og Landakot. Á Kálfatjörn búa nú tvö systkin ásamt föður sínum.
Stadur-301— Faðir minn var frá Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík. Þá voru þar 14 býli. 25 ár var hann sigmaður í berginu og síðasti formaður á Selatöngum, – reri þá sexmannafari.
— Öll mín æskuár átti ég heima í Grindavík og fermdist á Stað. Maður sá oft stórbrotna sjóa við Suðurnesin og marga hæpna landtöku, enda margir þar beinin borið við brimsorfna strönd, það var ekki ætíð sem lánaðist að sæta lagi. — Já, eins og ég sagði áðan þá fermdist ég að Stað. Þá var mikil byggð í Staðarhverfinu. Við vorum fermingarbræður ég og hann Guðmundur minn í Ísólfsskála — svo við erum nú farnir, að tölta nokkuð á 9. tuginn. — Það er senn komið að náttmálum, a.m.k. er vinndagurinn orðinn stuttur.
— Hugsaðu þér, maður, árið 1905 voru öll býli á Vatnsleysuströnd í byggð, já, ég held bara hvert einasta kot og mikið athafnalíf.
– Nú sækir fólkið bæði úr Brunnastaðahverfi og Vogum vinnu hingað og þangað — það sem ekki vinnur við þá útgerð sem er í Vogunum.
— Ég gerði stöðugt út í 20 ár og var oft nokkuð heppinn. þó engin sérstök fiskikló.

Stadur-302

Staður – uppdráttur ÓSÁ.

Og Höfði er alls ekki kominn í eyði, þar býr yngsta dóttir okkar með manni sínum. Þau hafa átt 7 börn og af þeim eru 4 dætur giftar — en þrjú eru heima. Það yngsta sonur, fermdist í vor.
— Já, þegar litið er til baka þá er svo sem margs að minnast.
T. d. Halaveðrið 1925. — Þá var ég á Ver frá Hafnarfirði og við komumst ekki undir Jökul fyrr en veðrinu slotaði. Maður var oft veðurbitinn eftir sjóferðirnar í þá daga. — En það skal ég segja þér, að ég tel að togararnir hafi eyðilagt flóann. Þar var áður svo að segja alltaf fullur sjór af fiski. Það er illa farið. Rányrkja borgar sig aldrei.
— En þegar ég nú lít um öxl, finnst mér lífið hafa verið gott, kannski ofurlítið hnökrótt stund um, ekki alveg ýfulaust frekar en sjórinn hérna við blessaða ströndina okkar. En þá var allur almenningur sem komst sæmilega af og var ánægður með lífið — og hvers er þá vant?”
Þ.M.

Heimild:
-Vísir, 25. október 1967, “Stundum þarf leiðin ekki að vera svo löng svo maður verði margs vísari”, bls. 9.

Höfði

Höfði.