Geitahlíð

Jörð í Krýsuvík hafði skolfið meira en hún á venju til að undanförnu. Nýjalandssvæðið hefur risið og hnigið á víxl. Líklega er gígurinn stóri milli Stóra-Lambafells og Kleifarvatns, yst í Hvömmum, að láta vita af sér.
SmjorbrekkustigurÞrátt fyrir lætin var ætlunin að feta Ketilsstíg frá Seltúni upp á Sveifluháls, framhjá Arnarvatni og yfir á Smjördalahnúk vestan í hálsinum. Sunnar eru Smjördalir og Smjörbrekkur. Um þær liggur Smjörbrekkustígur.
Þegar gengið var upp Ketilsstíg frá Seltúni mátti glögglega sjá gömlu námugötuna á a.m.k. tveimur stuttum köflum á leiðinni upp á hálsinn. Víðast hvar hefur runnið úr hlíðinni yfir gömlu götuna eða hún afmáðst, en nýrri göngustígur verið merktur annars staðar og  mun ofar. Leifar af vörðu eru efst í skarðinu við gömlu götuna. Austar hefur vatn afmáð götuna.

Smérbrekkustígur

Smérbrekkustígur norðan Hettu.

Útsýnið af hálsinum til morgunssólarinnar í austri var í einu orði sagt stórkostlegt. Þegar komið var inn fyrir Arnarvatn, sem nú var ísi lagt, var stefnan tekin áleiðis niður að Smjördalahnúk. Virkt hverasvæði er þar í hálsinum. Gengið var niður að þeim stað er líklegt þótti að Smjörbrekkustígur kæmi upp á hálsinn vestan hans. Þar er brött sandbrekka, en sjá má votta fyrir skásneiðing og tilgerðri götu. Vélhjólamenn hafa nýtt sér hann til að komast upp hlíðina. Þegar upp er komið mótar enn fyrir gamalli götu á sandhrygg. Liggur hún áleiðis suður hálsinn, beygir til suðausturs upp rofabrekku og síðan til austurs ofan hennar. Er þá komið inn á hverasvæðið fyrrnefnda. Beitarhólfsgirðingin liggur þar um og er príla fyrir gangandi yfir hana. Þaðan liggur gatan til suðausturs norðan við lágan hól. Austan hans beygir hún til suðurs og liggur síðan í sneiðing upp náttúrulegan stall. Ofan hans liggur gatan upp með norðanverðri Hettu og tengist Hettustíg (Hettuskarðsstíg) suðaustan hennar.
Smjorbrekkustigur-3Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir þetta svæði segir m.a.: “Þess er vert að geta, að Sveifluháls ber nokkur nöfn, svo sem Austurháls og Móháls eystri.
Hér voru líka Smjörbrekkur og Smjörbrekkustígur upp í Smjörbrekkuskarð.
Þá er komið að Ketilstígssteini kletti allmiklum og liggur vegurinn frá honum upp á hálsinn og er þá komið að Katlinum og í hinn eiginlega Ketilstíg, sem liggur um austurhlíð og suðurhlíð Ketilsins og þar upp á brún, síðan áfram framhjá Arnarvatni niður með efsta hluta Seltúnsgils yfir á stall ofan Seltúns og niður Seltúnsbrekkuna í Seltúnshvamm. Stundum var öll leiðin frá Hafnarfirði í Seltún og að Krýsuvík kölluð Ketilstígur. Að fara Ketilstíg. Vestur með hálsi liggur leiðin áfram og blasir þá fyrst við Smjördalahnúkur og Smjördalir milli hans og hálsins.”
Smjorbrekkustigur-4Stígurinn er ágætlega greiðfær og auðveldur yfirferðar fyrir ferðalanga á leið yfir hálsinn.
Gatan öll hefur líklega ekki heitið Smjörbrekkustígur heldur einungis kaflinn upp svonefndar Smjörbrekkur. Neðan þeirra gæti hún hafa greinst í lýsta leið og aðra til norðurs inn á Ketilsstíg ofan við Ketilinn.
Líklega heita Smjördalirnir og Smjörbrekkurnar austan Smjördalahnúks því nafni vegna þess að síðdegis þegar sól er lágt á lofti virðast þær smjörgular yfir að líta. Nú hefur allnokkurt rof orðið í dölunum, en vel má enn sjá hversu vel grónar hafa verið fyrrum. Á sama hátt bera Bleikingsvellir vestan undir hlíðunum keim af sólarroðanum.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimild m.a.:
-Gísli sigurðsson, örnefnalýsing fyrir Krýsuvík.

Krýsuvík

Krýsuvík – gamlar götur.