Á ferð FERLIRs með vesturmærum Grindavíkur frá austanverðum Valahnúk um Sýrfell, Súlur og Stapafell áleiðis að Arnarkletti var m.a. gengið þvert á forna þjóðleið milli Lágafells og Ósabotna (Hafna/Keflavíkur).
LeidirLeið þessi er vörðuð litlum vörðum og eru sumar fallnar fyrir alllöngu, einkum norðan af.
Þegar fyrrnefnd leið var skoðuð frá sunnanverðu Lágafelli og henni fylgt niður að Ósabotnum kom í ljós að sumstaðar hafi verið kastað úr götunni, en mosi gróið yfir. Þannig sást hún t.d. greinilega suðvestan í Lágafelli, brú var hlaðin á Súlugjá og þá sást hún vel norðan Mönguselsgjár. Lægð er í landinu svo til alla leið að Mönguselsgjá. Gatan er vörðuð í lægðinni. Ljóst er að leið þessi hefur ekki verið farin um aldir og hún virðist flestum gleymd. Ekki er ólíklegt að leiðin hafi verið notuð fyrr á öldum jafnt fyrir ferðir frá Þórkötlu- og Járngerðarstöðum í Hafnir, að Básendum og í Keflavík. Ekki hefur enn verið fullkannað hvar gatnamótin eru, en það verður gert fljótlega, nú þegar búið er að kanna meginleiðina.
Í örnefnalýsingu Vilhjálms Hinriks Ívarssonar frá Merkinesi um Hafnahrepp má lesa eftirfarandi: “Svo sem 1/2 kílómetra norðaustar í gjánni er klapparhóll, sem lítið ber á, og heitir hann Gamli-Kaupstaður. Ekki er kunnugt um nafngift þessa nema ef vera kynni, að setja megi í samband við alfaraleið (hestagötu) úr Grindavík til Keflavíkur til forna og þarna hafi máske verið áningarstaður.”
Varda-30Líklega á Vilhjálmur Hinrik við þessa götu þegar hann nefnir alfaraleiðina. Um er að ræða auðvelda reiðleið, tiltölulega slétta að Lágafelli. Ásinn, sem þar þarf að fara yfir, er aflíðandi, gróinn og mjög greiðfær.
Sem fyrr sagði er ætlunin að skoða þetta víðfeðmi betur fljótlega m.t.t. framangreinds. Ekki er ólíklegt að ætla að hlöðnu fiskibyrgin undir Sundvörðuhrauni (við Árnastíginn) og í Eldvörpum (við Hafnaheiðaveginn) hafi verið staðsett með hliðsjón af þessa leið, sem eftirleiðis verður nefnd Lágafellsleið.

Heimild:
-Hafnir (Hafnahreppur), Vilhjálmur Hinrik Ívarsson skráði; fæddur 12/8 1899, Eyvík, Grímsnesi, Árnessýslu; flytur að Merkinesi í Höfnum 1934.

Lágafell

Varða við Lágafellsleið.