Lambahraun

Bergið yst á Reykjanesi er að hluta til undirstaða úr gíg utan við Nesið (Valahnúk).
Um nokkur Lambagjá og nágrennihraun er þar um að ræða, bæði frá fyrra hlýskeiði (~>16.000 ára) og síðustu ísöld (>12.000 ára). Sýrfellið er líklega um ~11.500 ára og Sandfellshæðin (dyngja) er ~10.000 BP. Dyngjurnar á Berghólum og Langholti eru frá svipuðum tíma. Skil þeirra eru óljós. Staðarhverfi er staðsett á Sandsfellshæðar-hrauninu. Eitt er það þó hraunið á þessu svæði, skammt ofan við Staðarhverfið, sem vakið hefur forvitnan því það er yngra en Sandfellshæðin og eldra en öll nútímahraunin. Ekki er að sjá hvar upptökin hafa verið, en hraunið er greinanlegt í litlum óbrennishólmum, bæði inni í og við jaðar Lynghólshrauns og inni í Eldvarpahrauni. Lambagjáin er í suðausturjaðrinum á hrauninu, en það hefur ekki fengið nafn. Skal það hér nefnt Lambahraun eftir gjánni, enda gefur hún hrauninu rismestan svipinn. Hraunafurð Lynghólshraunsins hefur runnið í og fyllt Lambagjána að mestu, en einungis skilið eftir ca. 60 m minnisvarða um gjána. Í hana ofanverða hefur verið sótt kalt vatn fyrir fiskeldi nær ströndinni.
LambagjáEldvarpahraunið síðasta (~1226) hefur bætt um betur og nánast afmáð Lambahraunið ofanvert. Þessi miklu framangreindu hraun hafa náð að kaffæra gosstöðvar Lambahrauns svo nú mun vera erfitt að staðsetja þær. Líklegt má þó telja að þarna hafi verið röð lágra gjallgíga sem nú má sjá í hærra mæli í Eldvörpum. Ekki er ólíklegt að ætla að Lambahraunið hafi verið forverið Eldvarpahraunanna, þ.e. myndað undirstöðu þeirra ásamt Sandfellshæðinni. Þótt Lambahraunið sé ekki umfangsmikið, þ.e. sá hluti þess sem enn sést, er það gróið grasi og lyngi og tilkomumikið á að líta með fjölda formfagurra strýtna. Þá má finna bæði mannvistarleifar og áhugaverð jarðminjar í Lambahrauni, þ.e. í báðum óbrennishólmunum.
Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifaði grein í Náttúrufræðinginn 1986, Hraunið við Lambagjá. Þar segir hann:

Inngangur
StrýtaÍ riti mínu „Jarðfræðikort af Reykjanesskaga” (OS JHD 78311978) og korti, sem því fylgir eru sýnd fjögur mismunandi hraun vestan við Stað í Grindavík. Elst þeirra eru hraun frá Sandfellshæð (merkt D-6) en þau eru óslitið með sjó fram frá Bergsenda (Staðarbergs) og austur fyrir Húsatóttir, en kom auk þess fram vestan við byggð í Grindavík. Öll byggð í Staðarhverfi er á þessu hrauni. Næst þessu, hvað aldur varðar, er það hraun, sem hér er gert að umtalsefni. Ofan á það leggst svo það, sem nefnt er Berghraun og myndar Staðarberg, en það er raunar sama og Klofningahraun, og ættu þeir, sem ritið og kortin hafa undir höndum að leiðrétta villuna á kortinu (H-17 og H-15 er eitt og sama hraun). Verða þessi hraun hér eftir kölluð Rauðhólshraun, því komin eru þau úr einstökum gíg, Rauðhól, suðvestan við Sandfellshæð og skammt norðan við Eldvörp. Hraunið, sem hér um ræðir vantar á kortið. Aldursröð hraunanna verður þessi: Sandfellshæðar-hraun, hraunið við Lambagjá, Rauðhólshraun og Eldvarpahraun, en það síðast nefnda er samkvæmt aldursákvörðun um 2150 C14 ára, og ætti því að hafa runnið um 200 árum fyrir upphaf okkar tímatals.

HRAUNIÐ
LambahraunÞað þessara hrauna, sem er næst elst kemur fram í viki því er verður milli Eldvarpahrauns að austan og Rauðhólshrauns vestan við Grænabergsgjá í landi Staðar, en auk þess í óbrennishólmum þar norður af. Ekki mun það hafa sérstakt nafn en vikið milli áður nefndra hrauna mun heita Moldarlág.
Hraun þetta er afar sérstætt að útliti. Það er nú talsvert gróið en sendinn jarðvegur og foksandslag í öllum lægðum. Aldur hraunsins má nokkuð marka af því að það er brotið um þvert af gjám og sprungum, og hefur því verið til áður en þær mynduðust. Sprungurnar sjást aðeins í tveim elstu hraununum þarna, en hvorki í Rauðhólshrauni né Eldvarpahrauni. Jafnframt er svo að sjá sem litlar eða engar hreyfingar hafi á þessu svæði orðið frá því að Rauðhólshraun rann.
Varða í LambahrauniÞað sem vekur undrun er ytra útlit þessa hrauns, en því verður trauðla með orðum lýst og jafnvel góðar ljósmyndir gera því ekki full skil. Það er þunnt, varla nema 5 – 6 m og auðvelt hefur reynst að grafa gegnum það, en þéttan bergkjarna virðist víðast hvar vanta. Þó sést hann á kafla ofan við Lambagjá. Hraunið samanstendur af misstórum og alla vega löguðum bergbrotum, flestum hellulaga, mest 15-25 cm þykkum og afar blöðróttum.
Víða má greina opnar rásir eftir hraunlænur eða gas. Nú horfa þær í allar áttir „eins og andarvana auga í sjálfs sín tómleik rýni”. Svo hefur þetta ekist saman í hrauka og hóla, sem sumir eru nokkurra metra háir og óreglulega dreifðir um svæðið. Eina skýringin sem mér er tiltæk á þessu útliti hraunsins er eitthvað á þessa leið: Hraunið hefur verið mjög heitt, þunnfljótandi, gasmikið og hefur runnið hratt.
JarðminjarEftir fyrstu og hörðustu goshrinu hefur nokkurt hlé orðið, nóg til þess að skorpa hefur náð að myndast á hrauninu, en það hefur að nokkru leyti runnið í rásum undir yfirborði. Næsta hrina í eldvarpinu verður til þess að skorpan brotnar upp og ýtist saman í hóla og hrúgöld. Sums staðar getur að líta hvernig hraunið úr síðari hrinunni (?) hefur vafist utan um brotin úr fyrstu skorpunni. Í heild er þessi myndun hin furðulegasta, og hef ég engan hennar líka séð. Upptök hraunsins eru ófundin, en hljóta að vera á því svæði, sem nú er hulið Eldvarpahrauni og/eða Rauðhólshrauni og geta ekki verið fjarri.
Í LambahrauniNyrst sést það í óbrennishólmum röskum kílómetra ofan við Lambagjá. Þar er það stórbrotnast og raunar ekki útilokað að þar séu upptök þess enda þótt ekki séu þar neinir dæmigerðir gígir. Athyglisvert er að gjár, sem eru margra metra breiðar ganga gegnum þetta hraun, en næst undir því er hraun úr Sandfellshæð, eins og áður segir. Virðist því aldursmunur þessara tveggja hrauna ekki vera ýkja mikill. Í vestari óbrennishólmanum er Sandfellshæðarhraunið yfir 20 metra þykkt og grófstuðlað. Gegnum bæði hraunin gengur gjá, margra metra breið. Ég hef leyft mér að kalla hana Brúargjá sökum þess að yfir hana hefur myndast brú, steinbogi, úr Rauðhólshrauni.

Úlfur

Að dæma af þeim staðreyndum, sem hér má lesa í landslaginu hafa gjárnar orðið til á tímabilinu frá því að Sandfellshæð var virk eldstöð til þess að Rauðhóll gaus. Aldursákvörðun þessara eldstöðva getur því varpað ljósi á hvenær gjárnar mynduðust á þessu svæði. Að samsetningu er hraunið dæmigert þóleiíthraun með ámóta miklu af plagíóklasi og pýroxeni, 4% ólivín og aðeins um 1% plagíóklasdíla.”
Til frekari fróðleiks má geta, sem fyrr sagði, að Sandfellshæðin er talin <10.000 BP og Rauðhólshraunin eru talin 2000-3000 ára. Eldvarpahraunin yngri eru talin vera frá Reykjaneseldunum 1226, en þau eldri frá því um 600 e.Kr. Flótlega er ætlunin að berja steinbogann yfir Brúargjá auga og mun mynd af honum þá birtast hér.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild:
-Jón Jónsson: Hraunið við Lambagjá, Náttúrufræðingurinn – 56. árg., 4. tbl. 1986, bls. 209-211.

Grænabergsgjá

Grænabergsgjá.