Jón Baldvinsson

Í Fálkanum 1955 er eftirfarandi frásögn af strandi togarand Jóns Baldvinssonar við Hrafnkelsstaðabergi á Reykjanesi:

Jon Bald

“Aðfaranótt fimmtudagsins 31. mars [1955] strandaði togarinn Jón Baldvinsson við Reykjanes og gjöreyðilagðist. Björgunarsveit slysavarnardeildarinnar „Þorbjörns” í Grindavík bjargaði allri áhöfn skipsins, 42 mönnum. Með þessu er enn á ný höggvið skarð í hinn íslenska togaraflota á þessum vetri, þó að svo giftusamlega tækist til, að manntjón yrði ekkert við skipsskaða þennan. Togarinn var að koma af Selvogsbanka með talsvert af saltfiski innanborðs og ætlaði að fara vestur á Eldeyjarbanka eða vestur undir Jökul.

Nokkru fyrir klukkan fjögur um nóttina strandaði togarinn og sendi út neyðarskeyti. Var björgunarsveit Slysavarnadeildarinnar „Þorbjörns” í Grindavík kvödd á vettvang, en á strandstaðinn er 10—15 kílómetra leið, sem víða er mjög seinfarin. Vitavörðurinn á Reykjanesi, Sigurjón Ólafsson, hafði séð neyðarblys frá skipinu, og varð hann fyrstur á strandstaðinn. Togarinn hafði siglt upp í brimgarðinn undir Hrafnkelsstaðabergi, rétt hjá litla vitanum á Reykjanesi, en skammt þar frá strandaði olíuskipið Clam, eins og mönnum er ennþá í fersku minni.
áhöfninNokkru fyrir klukkan 7 um morguninn var björgunarsveitin komin á strandstaðinn, og kl. 20 mín. fyrir 9 var búið að bjarga allri áhöfninni í land. Skipstjórinn, Þórður Hjörleifsson, fór síðastur frá borði. Björgunarstarfið gekk mjög greiðlega og áfallalaust, enda er sveitin skipuð vönum björgunarmönnum. Formaður hennar er Tómas Þorvaldsson, en Sigurður Þorleifsson er formaður Slysavarnadeildarinnar „Þorbjörns”.
Skipbrotsmenn nutu hinnar bestu aðhlynningar hjá vitavarðarhjónunum á Reykjanesi, og þegar til Grindavíkur kom, bauð kvenfélagið á staðnum öllum til hádegisverðar. Að því búnu héldu skipbrotsmennirnir til Reykjavíkur.
Þegar þetta er ritað, standa sjópróf enn yfir, svo að ekki er fullvíst um orsök slyssins.”

Heimild:
-Fálkinn, 28. árg.,14. tbl. (08.04.1955).

Jón Baldvinsson

Jón Baldvinsson – björgunarhringur.